other-beard-guy

Á undanförnum árum hafa skegg verið í tísku, kvenfólki til mismikillar ánægju. Action 7 News í Albuquerque í Nýju Mexíkó vildi athuga hvers konar bakteríur mætti finna í skeggjum karlmanna og fékk örverufræðinginn John Golobic í lið með sér.

Rannsóknin var langt frá því að vera vísindaleg en aðeins fá sýni voru skoðuð og enginn samanburðarhópur var til staðar. Niðurstöðurnar þóttu þó sláandi og segir í frétt Action 7 News að í skeggjum hafi meðal annars fundist bakteríur sem má finna í klósettum en ekki er tekið fram hvaða bakteríur það voru.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem sambærileg rannsókn hefur verið gerð en árið 1967 var stór rannsókn framkvæmd þar sem bakteríufjöldi í skeggjuðum mönnum var borinn saman við fjölda baktería í þeim sem rökuðu sig og voru niðurstöðurnar þær að mun fleiri bakteríur var að finna í skeggjum en á húð. Seinna, eða árið 2000 var svipuð rannsókn framkvæmd sem sýndi sambærilegar niðurstöður.

Það virðist því vera að fleiri bakteríur sé að finna í skeggjum en á húð rakaðra manna en ekki er hægt að segja að munurinn sé svo mikill að skeggjaðir menn þurfi að hafa áhyggjur eða gera sérstakar ráðstafanir.