Niðurstöður nýrrar skýrslu sýna fram á að hindranir sem skerða aðgang almennings að sýklalyfjum í lág- og millitekjulöndum eru mikil heilsufarsógn. Eins og staðan er í dag dregur skert aðgengi fleiri til dauða en sýklalyfjaónæmi.

Skertur aðgangur alvarlegt vandamál

Sýklalyfjaónæmi er vel þekkt vandamál sem orsakast meðal annars af rangri notkun á sýklalyfjum. Heilmikið hefur verið fjallað um sýklalyfjaónæmi á undanförnum árum og er það ekki að ástæðulausu.

Vegna sýklalyfjaónæmis reynist nú erfiðara að meðhöndla sýkingar af völdum ákveðinna baktería. Sýkingar á borð við þvagfærasýkingar geta nú í stöku tilfellum jafnvel leitt til dauða vegna þess að viðkomandi baktería er ónæm fyrir mest notuðu sýklalyfjunum á markaðnum. Minna hefur verið fjallað um aðra hættu tengda sýklalyfjum: skertan aðgang að þeim.

Víða í heminum eiga einstaklingar í lág- og millitekjulöndum erfitt með að nálgast sýklalyf þegar á þarf að halda. Metið er að ár hvert látist 5,7 milljón einstaklinga vegna skerts aðgengis og er því mikið í húfi. Flest dauðsföllin þessu tengd eiga sér stað í lág- og millitekjulöndum.

Dregur fleiri til dauða en sýklalyfjaónæmi

Fyrr í mánuðinum birtist skýrsla sem unnin var af vísindamönnum við heilbrigðisrannsóknarstofnunina Center for Disease Dynamics, Economics & Policy (CDDEP). Niðurstöður skýrslunnar voru byggðar á ritrýndum yfirlitsgreinum sem og viðtölum við hagsmunaaðila í Úganda, Indlandi og Þýskalandi. Tilgangur skýrslunnar var að bera kennsl á helstu þætti sem hindra aðgengi að sýklalyfjum auk þess að leita leiða til að vinna gegn vandanum.

Að sögn Dr Ramanan Laxminarayan, forstöðumanni CDDEP og eins höfunda skýrslunnar, dregur skert aðgengi að sýklalyfjum fleira fólk til dauða en sýklalyfjaónæmi, eins og staðan er í dag. Þrátt fyrir þetta er vandinn illa þekktur.

Flókið skráningaferli og ófullnægjandi aðstaða

Það eitt að til sé sýklalyf gegn ákveðnum bakteríusýkingum þýðir ekki að lyfið rati til allra landa þar sem sjúkdómurinn er landlægur. Rannsóknin sýndi til dæmis fram á að þrátt fyrir að 21 nýtt sýklalyf hafi komið á markað á milli áranna 1999 og 2014 hafi færri en fimm þeirra verið skráð í flestum löndum í Afríku sunnan miðbaugs. Langt og flókið skráningarferli í kringum markaðsleyfi fyrir lyf spilar hér inn í að sögn höfundanna.

Burtséð frá því hversu erfitt getur reynst að koma nýju lyfi á markað, eru aðstæður í heilbrigðisstofnunum lág- og millitekjulanda gjarnan ófullnægjandi. Í ofanálag er víða vöntun á starfsfólki með rétta þjálfun.

Í skýrslunni er Úganda tekið sem dæmi. Þar í landi eru á bilinu 10 til 54 prósent vöntun á starfsfólki innan heilbrigðisstofnanna. Ástæðuna má meðal annars rekja til lágra launa, streituvaldandi vinnuumhverfis og skorts á fjármagni. Þetta leiðir til þess að á mörgum stöðum er mannekla svo mikil að ekki næst að fylgja meðferðum nægilega vel eftir sem getur meðal annars orðið til þess að sjúklingar missa úr lyfjagjöf.

Til að setja í samhengi hversu mikil vöntun á starfsfólki er í ákveðnum löndum er ágætt að skoða stöðuna miðað við ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælist til þess að einn læknir sé fyrir hverja þúsund íbúa. Á Indlandi er markinu langt frá því að vera náð og er aðeins einn læknir fyrir hverja 10.189 íbúa. Þar í landi er vöntunin því sem nemur 600.000 læknagildum. Staðan er ekki skárri þegar litið er til hjúkrunarfræðinga. Þar er vantar tvær milljónir hjúkrunarfræðinga eða einn hjúkrunarfræðingur á hverja 483 sjúklinga.

Skortur á lyfjum og ófullnægjandi utanumhald

Annar vandi í lág- og millitekjulöndum er að aðfangakeðja lyfja er ekki nægilega skilvirk. Að því er kemur fram í skýrslunni voru mörg lyf í Úganda flutt og geymd við óásættanlegar aðstæður. Að auki var mikill skortur á lyfjunum almennt og voru færri en helmingur (47%) þeirra lyfja sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin listar sem ómissandi ekki framleidd af miðstýrðu yfirvaldi.

Til að bæta gráu ofan á svart olli ófullnægjandi utanumhald á lyfjaframleiðslur því að mikið var um léleg lyfjagæði og töluvert var um fölsun á lyfjum. Fölsun lyfja er alvarlegt vandamál og er 17% af þeim lyfjum sem tilkynnt eru til Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sem fölsuð eða ófullnægjandi á ári sýklalyf.

Fjölþættur vandi

Það er ýmislegt fleira sem hefur áhrif á það hvort almenningur hafi greiðan aðgang að sýklalyfjum. Í skýrslunni nefna höfundarnir meðal annars að í löndum þar sem heilbrigðiskerfi styðja ekki við kaup á lyfjum er ekki óalgengt að sjúklingar hafi einfaldlega ekki ráð á því að kaupa lyfin.

Aukið sýklalyfjaónæmi verður síðan til þess að færri lyf eru í boði á heimsvísu til að vinna á bakteríusýkingu. Í ofanálag hefur dregið töluvert úr þróun á nýjum sýklalyfjum frá því á sjöunda áratugnum. Þetta má meðal annars rekja til þess að í dag er erfiðara að græða á lyfjunum en áður var, mikil samkeppni er á markaðnum og hættan er sú að ónæmi myndist.

Ráðleggingar höfunda

Ljóst er að vandinn er alvarlegur og ekki auðleysanlegur. Höfundar greinarinnar mæla með að eftirfarandi skref séu tekin til að auka aðgengi fólks að nauðsynlegum sýklalyfjum og draga úr dauðsföllum sem auðvelt væri að koma í veg fyrir ef rétt lyf væru aðgengileg.

–       Hvetja til rannsókna og þróunar á nýjum eða betrumbættum sýklalyfjum, nákvæmari greiningum á sýkingum, bóluefnum og staðgenglum sýklalyfja.

–       Styðja skráningu á sýklalyfjum í fleiri löndum en nú er, í samræmi við þarfirnar í hverju landi fyrir sig.

–       Þróa og innleiða meðferðarleiðbeining fyrir notkun á sýklalyfjum fyrir hvert land.

–       Kanna nýjar leiðir til að útvega fjármagn fyrir nauðsynleg sýklalyf.

–       Tryggja gæði sýklalyfja og styrkja lyfjaskráningu.

–       Hvetja til staðbundinnar framleiðslu þar sem hægt er til að draga úr kostnaði.

Greinin birtist fyrst í prentuðu eintaki og á vefsíðu Stundarinnar.