Mannkynið hefur fundið upp ýmsar leiðir til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir í gegnum tíðina. Nokkrar vinsælar getnaðarvarnir fyrir konur hafa verið til staðar í áraraðir og gera konum það kleift að koma í veg fyrir þunganir með öruggum hætti. Nýstárleg aðferð sem byggir á notkun á smáforriti, ásamt mælingum á líkamshita var nýverið samþykkt í Bandaríkjunum.

Fyrsta smáforritið sem samþykkt hefur verið sem getnaðarvörn
Konur hafa lengi verið mishrifnar af þeim getnaðarvörnum sem í boði eru á markaðnum. Þar má meðal annars nefna hina vinsælu getnaðarvarnarpillu sem þrátt fyrir gagnsemi sína getur haft óæskilegar aukaverkanir í för með sér fyrir notandann. Að auki eiga getnaðarvarnir fyrir konur það sameiginlegt að vera inngrip, hvort sem það er í formi hormóna eða sem aðskotahlutur í líkama konunnar.

Til að reyna að leysa þennan vanda og bjóða upp á öðruvísi leið til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir þróuðu hjón í Svíþjóð smáforritið Natural Cycles.

Smáforritið er hugarfóstur hjónanna Elina Berglund og Raoul Scherwitzl. Berglund er eðlisfræðingur að mennt og starfaði hjá CERN þar sem hún var hluti af teymi innan stofnunarinnar sem vann Nóbelsverðlaunin árið 2013 fyrir uppgötvun Higgs bóseindarinnar.

Natural Cycles kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 2017 og er fyrsta smáforritið sem samþykkt hefur verið sem getnaðarvörn í Evrópu. Í ágúst 2018 var forritið síðan samþykkt af Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna.

Byggir á breytingum á líkamshita kvenna á tíðarhringnum
Natural Cycles er byggt á algóriþmum sem reikna út hvenær egglos á sér stað. Forritið reiknar út á hvaða dögum kona er frjó byggt á upplýsingum sem hún slær sjálf inn í forritið.

Forritið byggir á því að líkamshiti kvenna breytist í gegnum tíðarhringinn vegna breytinga á hormónagildum. Algóriþmi forritsins greinir líkamshitann sem sleginn er inn í forritið, auk annarra þátta á borð við lifun sæðis og gögn frá fyrri tíðarhringjum.

Á hverjum morgni, um leið og hún vaknar, þarf konan að mæla grunnlíkamshita sinn. Munnhitamælir fylgir einmitt með þegar forritið er keypt og er hann nákvæmur upp á tvo aukastafi. Forritið sjálft kostar um 9000 krónur á ári.

Á hverjum degi sýnir forritið hvort konan sé frjó þann daginn út frá útreikningum sínum og hvort hún þurfi að nota verjur eða sleppa kynlífi ef hún vill ekki verða barnshafandi. Þeir dagar sem konan er frjó eru merktir sem “rauðir dagar” í forritinu og eru um 10 talsins fyrir hvern tíðarhring. Aðrir daga, eða öryggir dagar eru merktir sem grænir dagar.

Hærri líkamshiti í kringum egglos
Meðaltíðarhringur kvenna varir í 29 daga en lengd hans getur verið mismunandi eftir konum. Í hverjum tíðarhring er farið í gegnum þrjá fasa. Í fyrsta fasa tíðarhringsins (eggbússtig) er líkamshiti kvenna lægstur (að meðaltali 36,23°C hjá notendum Natural Cycles) og hormónið estrógen er hækkað.

Næsti fasi er egglosið sjálft. Þegar það verður hækkar líkamshiti kvenna almennt um 0,2-0,45°C. Að auki hækkar styrkur hormóns sem kallast gulbúshormón um 48 tímum fyrir egglos. Egglos á sér gjarnan stað í kringum 17. dag tíðarhringsins.

Að loknu egglosi á sér stað þriðji fasi tíðarhringsins, gulbússtig. Í þessum fasa er hormónið prógesterón hækkað og líkamshiti einnig. Meðallíkamshiti notenda Natural Cycles í þessum fasa er 36,58°C.

Öruggt samkvæmt klínískum prófunum
Smáforritið hefur gengið í gegnum klínískar prófanir til að sannreyna virkni þess. Að því er kemur fram á vefsíðu Natural Cycles er það 93% öruggt, þegar það er rétt notað.

Áður en forritið fór á markað í Bandaríkjunum fóru fram klínískar rannsóknir á því þar í landi. Rannsóknirnar tóku til 15.500 kvenna sem notuðu forritið í að meðaltali átta mánuði.

Samkvæmt þeim prófunum urðu 1,8% þeirra kvenna sem notuðu forritið rétt barnshafandi á tímabilinu. Fyrir meðal notanda sem notaði forritið ekki alltaf eins og til er ætlast og stundaði óvarið kynlíf á dögum sem merktir voru sem rauðir var tíðnin hærri eða 6,5%.
Til samanburðar verða 9% notenda getnaðarvarnarpillunnar þungaðir, samkvæmt Centers for Disease Control and Prevention. Sé hormónalykkjan notuð verða þunganir í minna en 1% tilfella en í um 18% tilfella þegar smokkar eru notaðir.

Að sjálfsögðu er eina leiðin til að koma alfarið í veg fyrir þungun sú að stunda hreinlega ekki kynlíf.

Öryggi forritsins verið gagnrýnt
Ekki eru allir sammála um öryggi forritsins og hefur það verið gagnrýnt fyrir það að ekki sé hægt að treysta á það eitt og sér sem getnaðarvörn. Bent hefur verið á er að, líkt og með svo margt annað, eru gæði upplýsinganna sem forritið gefur bara eins og góð og upplýsingarnar sem notandinn slær inn í það.

Natural Cycles lenti í bakslagi árið 2017 þegar Södersjúkrahúsið í Stokkhólmi tilkynnti hátt í 40 tilfelli ótímabærra þungana kvenna sem nýttu sér forritið. Konurnar höfð sótt sjúkrahúsið til að fara í fóstureyðingu á milli september og desember í fyrra.

Fyrirtækið svaraði gagnrýninni á þann hátt að þessi fjöldi þungana væri líkt og við var að búast miðað við fjölda notanda í Svíþjóð.

Aðrar gagnrýnisraddir hafa bent á að þó að Natural Cycles geti vissulega virkað vel fyrir þær konur sem nota það rétt sé það svo flókið í notkun að fáar konur muni nota það rétt til lengri tíma litið. Til dæmis geti óvenjulegar aðstæður á borð við ferðalög komið í veg fyrir að forritið sé rétt notað og auðvelt sé að gleyma að mæla líkamshita sinn á hverjum morgni.

Fréttin birtist fyrst í tímariti og á vefsíðu Stundarinnar