Mynd: Mashable
Mynd: Mashable

Samsung hefur nú fengið einkaleyfi í Suður-Kóreu fyrir linsum sem gegna veigameira hlutverki en að auka sjón þess sem þær ber. Aukahlutverk, eða mögulegt aðalhlutverk, linsanna er einnig að taka myndir af því sem eigandinn sér.

Til að stjórna myndavélinni þarf sá sem ber linsurnar ekki að gera annað en að blikka. Myndirnar eru svo sendar í gegnum loftnet, sem eru innbyggð í linsurnar, í síma viðkomandi þar sem þær eru unnar en þegar vinnslunni er lokið er hægt að sjá myndirnar í linsunum.

Þetta hljómar kannski eins og kafli í vísindaskáldsögu, og að hluta til er þetta skáldsaga að minnsta kosti enn sem komið er. En að hluta til ekki svo fjarri sanni. Tæknirisinn Samsung hefur að minnsta kosti fengið einkaleyfi á augnlinsunum, þó ekki liggi enn fyrir hversu langt í framleiðsluferlinu linsurnar eru komnar.

Heimurinn sem fyrirtæki eins og Samsung hrærast í breytist svo hratt að einkaleyfaútgáfa er oft mörgum skrefum á undan framleiðslu hlutanna. Um leið og hugmynd sem þessi dettur á borðið þarf að bregðast við. Google sem er harður samkeppnisaðili hefur nú þegar fengið einkaleyfi á annars konar snjalllinsum, sem þjóna læknisfræðilegum tilgangi við að mæla efnasamsetningu tára.

Notkun ósýnilegra myndavéla sem þessa mun væntanlega vekja upp margar siðferðilegar spurningar, svo það verður áhugavert að sjá hvort hugmyndin verður að veruleika og hvort henni fylgi þá einhverjir notendaskilmálar.