Mynd: Mojoptix
Mynd: Mojoptix

Það hljómar svolítið þversagnakennt að eiga stafræna sólarklukku, enda er sú klukka þar sem sólin er notuð til að varpa skugga á yfirborð til að segja okkur hvað klukkan er, ekki stafræn. Hins vegar er þessi klukka sem kynnt er í myndbandinu hér fyrir neðan mjög háð hinum stafræna heimi.

Franskur verkfræðingur sem kallar sig Mojoptix nýtti sér undur þrívíðrar prentunar til að búa til nokkurs konar spjald sem notar sólargeislana til að varpa tímanum á jörðina á stafrænu formi.

Klukkan er því ekki stafræn í raun en tölurnar sem hún sýnir eru eins og þær sem við sjáum á stafrænum klukkum. Það er þó nokkuð flókið því það þýðir að sólin þarf að skína í gegnum nákvæmt mynstur á hverjum tíma til að sýna hvað klukkan er.

Klukkan er þó ekki sérlega nákvæm en tíminn á henni hleypur á tuttugu mínútum. Auk þess er hún nákvæmust milli 10 og 16 á daginn en eins og gefur að skilja er líka mikilvægt að klukkan snúi rétt gagnvart sólu til að réttur skuggi falli af henni.

Í myndbandinu hér að neðan útskýrir höfundur klukkunnar hvernig hægt er að búa þessa skemmtilegu klukku til, svo ef þið hafið aðgang að þrívíddar prentara þá er alveg spurning hvort þetta verði jólagjöfin í ár.