fossil_asia

Á árunum 2009 og 2010 fundust steingervingar af höfuðkúpu og kjálkabeini í hellinum Tam Pa Ling sem er staðsettur í Annamite fjöllunum í Laos.

Höfuðkúpan er af forföður eða móður nútímamannsins og sýnir að ferðir manna útúr Afríku hófust mun fyrr en áætlað var. Að sama skapi virðist maðurinn hafa ferðast mikið fyrir um 46.000 til 63.000 árum síðan.

Kjálkinn hins vegar er frá svipuðum tíma en geymir bæði einkenni nútímamannsins og fyrri tegunda, eins og til dæmis Neandertals mannsins. Kjálkinn gefur til kynna að hakan hafi tilheyrt nútímamanninum meðan sterkt kjálkabein, utan um jaxlana tilheyra eldri tegundum mannsins.

Fundurinn gefur vísbendingar um að annað hvort hafi nútímamaðurinn og eldri tegundir æxlast og blandast eða það sem vísindamenn telja líklegra að nútímamaðurinn geymir samsafn af hinum ýmsu eiginleikum frá fornum og nú útdauðum tegundum.

Fundurinn í Tam Pa Ling er sá elsti sem finnst af nútímamanni í suð-austur hluta Asíu. Hann rennir styrkari stoðum undir kenningar steingervingafræðinga sem hafa rannsakað steingervinga frá Evrópu, Afríku og Asíu sem einnig virðast geyma eiginleika fleiri tegunda mannsins.

Fréttatilkynningu um fundinn og rannsóknarniðurstöður má sjá hér og greinina sjálfa má nálgast hér.

Mynd hér að ofan er fengin úr greininni og sýnir kjálkann sem fannst.