Jawbone

Steingervingur af kjálka sem fannst í Eþíópíu árið 2013 er sennilega um 2,8 milljón ára gamall. Það er um 400.000 árum eldri en elstu steingervingar af ættkvísl mannsins, sem hingað til höfðu fundist. Grein um fundinn birtist í gær, 4. mars 2015 í Science.

Steingervingurinn er neðri kjálki sem hefur 5 tennur. Steingervingurinn passar inní áður ófylltan tíma, en fáir steingerveingar eru til sem eru á bilinu 2,5 til 3,0 milljón ára gamlir. 3,0 milljón ára gamlir og eldri steingervingar af prímötum tilheyra ekki ættkvíslinni Homo heldur Australopithecus. Fundur af þessu tagi sem fannst 1974 er mjög frægur en þá fannst heil beinagrind af kvenkyns Australopithecus sem fékk nafnið Lucy. Þessi nýji steingervingur kemur af svipuðu svæði en telja fræðimenn að hann tilheyri ættkvísl Homo þrátt fyrir að vera líkur Lucy.

Hópurinn sem fann steingervinginn á enn eftir að skoða hvaða fæðu tegundin nýtti en getur þó sagt að tegundin hafi gengið á tveimur fótum. Fundurinn er mikilvægt brot í púsluspilið sem við vonumst til að geti loks sagt okkur hvernig maðurinn varð til.

Hér má sjá fréttaskýringu um þennan merka fund ásamt viðtali við hópinn sem á heiðurinn af fundinum.