hydrao smart shower

Ofnotkun á vatni er eitt af þeim vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir og eru langar sturtur einn þáttanna sem spilar þar inn í. Franskt fyrirtæki, Start & Blue, hyggst ráða bót á þessum vanda með því að vara sturtunotendur við því þegar sturtan er orðin of löng.

Fyrirtækið hefur hannað sturtuhaus sem skynjar hversu mikið vatn fer í gegnum hann. Þegar 10 lítrar hafa verið notaðir blikkar grænt LED ljós, fjólublátt þegar notkunin er komin upp í 50 lítra og að lokum verður ljósið rautt þegar yfir 50 lítrar hafa verið notaðir. Framleiðendurnir segja rauða ljósið vera nógu pirrandi til að notendur muni vilja koma sér úr sturtunni sem fyrst.

Þetta er ekki allt og sumt en samhliða sturtuhausnum er hægt að nota smáforrit sem mælir vatnsnotkun notandans yfir lengri tíma og býður upp á þann möguleika að breyta ljósstillingunum á sturtuhausnum.

Sturtuhausinn ber heitið Hydrao Smart Shower og var hann kynntur á CES ráðstefnu í Las Vegas á dögunum.