Mynd: Chocolate Alchemy
Mynd: Chocolate Alchemy

Súkkulaði er eitt af okkar uppáhalds viðfangsefnum. Þrátt fyrir ógrynni rannsókna sem benda til að ofneysla á sælgæti sé að draga mannkynið villur vega, í hyldýpi lífstílssjúkdóma sem við höfum ekki undan að skilgreina, þá eru alltaf einhverjar rannsóknir sem benda til þess að súkkulaði geti haft jákvæð áhrif á heilsu okkar.

Samantekt slíkra rannsókna var birt í Frontiers in Nutrition í lok síðasta mánaðar. Þar eru teknar saman rannsóknir á áhrifum efna sem finnast í súkkulaði og heita flavonóíðar. Þessi efni hafa sýnt jákvæð áhrif á hjarta- og æðasjúkdóma og einnig nýlega taugasjúkdóma. Til að skoða það nánar kafaði rannsóknarhópur á Ítalíu í fjöldann allan af rannsóknum á þessum fjölbreytta hópi efna.

Flavonóíðar er samheiti yfir andoxunarefni sem finnast m.a. í kakóbauninni. Efnin hafa margvísleg áhrif og samkvæmt rannsókn ítalska hópsins virðist inntaka flavonóíða hafa jákvæð áhrif á heilastarfsemi fólks. Hversu sterk áhrifin eru veltur mikið á því hvernig úrtakshópurinn er samansettur en það vill svo ánægjulega til að mest áhrif mælast í fólki sem er á byrjunarstigum elliglapa. Flavoníóðar gætu, ef frekari rannsóknir staðfesta þessi áhrif, verið notaðir sem fæðubótarefni til að fyrirbyggja elliglöp.

Við skulum samt ekki öll hlaupa beint útí búð að kaupa ógrynnin öll af súkkulaði. Þó þessar gleðifréttir bendi til jákvæðra áhrifa kakóbaunarinnar þá bætum við ótrúlegu magni af óhollustu útí súkkulaðið okkar, aðallega sykri.

Hollustuna sem felur sig í kakóbauninni er helst að finna í dökku súkkulaði, þannig að ef við ætlum að bæta flavoníóðum í matarræðið okkar er líklega best að gera það á því formi.