sleeping

Eitt sinn var það svo að heimasíminn var útbreitt þarfaþing á hverju heimili. Þegar krakkar vildu hittast var aðeins tvennt í stöðunni, hringja í heimasímann eða bara banka uppá. Í dag er líklega óhætt að segja að ríki snjalltækjatímar og til að hafa samskipti við vini sína er algjör óþarfi að eyða tíma í að smjaðra fyrir foreldrum þeirra.

Sá unglingur sem ekki á snjallsíma er vandfundinn enda er sá einstaklingur líklega ekki sjáanlegur á samskiptamiðlum þar sem svo mörg félagsleg samskipti fara fram. Mikið er deilt um ágæti símanna og eflaust má breyta og bæta svo hægt sé að nýta þessa tól á uppbyggilegan hátt.

Rannsókn sem nýlega var birt í vísindaritinu Sleep Medicine gefur til kynna að aukin snjallsímanotkun sé að stela verðmætum svefntíma af börnunum okkar. Í rannsókninni sem unnin var við San Diego State University voru tekin saman svör yfir 360.000 unglinga sem svöruðu stöðluðum spurningalista m.a. varðandi svefnmynstur sitt og internetnotkun.

Samkvæmt svörum bandarísku ungmennanna þá sofa 40% þeirra minna en 7 klukkustundir á hverri nóttu. Til viðmiðunar mæla vísindahópar á þessu sviði með því að ungmenni fái u.þ.b. 9 klst svefn og sama fræðifólk segir að minna en 7 klst svefn sé ekki nægur tími fyrir þennan aldurshóp til að hvílast.

Þeim ungmennum sem sofa minna en 7 klst á sólarhring hefur fjölgað umtalsvert síðan árið 2009, þegar snjallsímarnir komu til sögunnar. Þegar internetnotkun ungmennanna var skoðuð kom svo í ljós að þau sem sváfu lítið voru yfirleitt líkleg til að eyða a.m.k. 5 klst á dag á netinu.

Hluti skýringanna getur legið í því að ungmennin gleyma sér í símanum þegar komið er að háttatíma og eyða kannski dýrmætum svefntíma sínum þess vegna í símanum. En einnig má ekki gleyma þeim áhrifum sem ljósin frá símanum geta haft á líkamsstarfsemi okkar.

Þegar einstaklingar eru að nota símana of nálægt háttatíma getur ljósið virkað örvandi og þannig komið í veg fyrir að svefninn færist yfir viðkomandi, þrátt fyrir að hann eða hún þurfi mikið á svefni að halda.

Þessar niðurstöður eru um margt umhugsunarverðar. Það er mjög mikilvægt fyrir líkamann að fá sína hvíld svo ekki sé nema til að viðhalda öllum kerfum líkamans. Svefnleysi hefur verið tengt við margs konar kvilla, líkamlega og andlega og skal engan undra því við þekkjum það flest hversu illa okkur líður þegar svefninn er af skornum skammti.

Fyrir okkur Íslendinga eru svona niðurstöður kannski sérstaklega umhugsunarverðar en eins og landinn veit þá hefur lengi verið deilt um hvort rétt sé að breyta klukkunni svo við sem byggjum þetta land séum nær okkar landfræðilega tímabelti.

Það eru líka ekki nema nokkrar vikur síðan að rannsóknir á líkamsklukkunni og þeim sameindatakti sem stjórnar henni voru heiðraðar með Nóbelsverðlaunum. En það er einmmitt góð áminning um það hversu ótrúlega mikilvæg líkamsklukkan er.