Mynd: The Huffington Post
Mynd: The Huffington Post

Við könnumst flest við að hafa undir ákveðnum kringumstæðum þurft að vaka hálfa eða heila nótt. Afleiðingar þess eru kannski miserfiðar fyrir fólk en flestir kannast samt við að vera sljóir og fyrst og fremst mjög þreyttir eftir slíka reynslu. Rannsóknir á svefni og áhrifum hans eru mikilvægar til að skilja þessa furðulegu hegðun sem öll dýr virðast viðhafa, en ekki er síður mikilvægt að skoða hvaða áhrif svefnleysi hefur á líkamann.

Nýlega birti Hvatinn frétt um sænska rannsókn sem sýndi að svefnleysti hefur áhrif á tjáningu gena. Nú hefur enn ein rannsóknin verið birt sem sýnir hvernig svefnleysi hefur áhrif á heilann og lögun hans.

Í rannsókninni sem birtist nýlega í PlosONE voru rúmlega 20 einstaklingar látnir vaka í 23 klukkustundir. Myndir voru teknar af heila þeirra þegar þeir vöknuðu, að kvöldi dags og svo undir morgun þegar þeir höfðu vakað í 23 klukkustundir.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að með hverri vökustund breyttist lögun hvíta efnisins í heilanum. Svo virtist sem minnkun á efninu ætti sér stað með vöku. Þetta kemur fyrst og fremst fram í því að einstaklingar sem vaka lengi eiga erfitt með að hugsa, við þekkjum það líklega flest að einfaldar setningar verða þungar í vöfum eftir vökunótt.

Þessar breytingar eiga sér líka stað meðan við vökum yfir daginn, á aðeins annan hátt samt sem áður, en við svefn á nóttunni þá ganga þær til baka. Þess vegna er eðlilegt að áætla sem svo að eftir eina vökunótt ganga breytingar á heilanum til baka næst þegar eðlilegum svefni er náð. Hins vegar gæti verið að ítrekað svefnleysi hefði alvarlegri áhrif á heilann en einstaka vökunótt. Enn á þó eftir að rannsaka það, til að sjá hvort svefnleysi til lengri tíma hafi óafturkræf áhrif á heilann.