sleeping

Góður svefn er gulls ígildi, það vita þeir sem hafa misst úr verðmætar svefnstundir. Að vera svefnvana getur nefnilega verið bókstaflega sársaukafullt, því líkaminn er engan veginn samþykkur því að fá ekki sína hvíld. Langvarandi svefnleysi getur einnig fylgt ýmsir óvelkomnir kvillar eins og depurð, skapgerðarbreytingar og jafnvel óminni. Það er því ekki ofsögum sagt hversu mikilvægur góður svefn er og enn bætast við rannsóknir sem undirstrika hversu vel við ættum að hugsa um hann.

Í rannsókn einni sem birtist í Neurology á dögunum er fylgst með svefnmynstri 321 sjálfboðaliða og heilsufari þeirra í að meðaltali 12 ár eftir það. Af þeim 321 sem tóku þátt í rannsókninni greindust 32 með einhvers konar heilahrörnun á meðan á rannsókninni stóð.

Þegar svefnmynstur þeirra einstaklinga var borið saman við svefnmynstur einstaklinga sem viðhéldu eðlilegri heilastarfsemi kom í ljós að þeir vörðu styttra tíma á hinu svokallaða REM svefnstigi. Heilbrigðir einstaklingar eyddu að meðaltali 20% svefntímans í REM svefnstig, meðan þeir sem greindust með heilahrörnun eyddu 17% svefntímans á því stig.

Þessar niðurstöður staðfesta það sem áður hefur verið sýnt fram á, að svefnvenjur geta haft gríðarleg áhrif á heilbrigði taugakerfisins. Í þessari tilteknu rannsókn er þó kafað dýpra ofan í það hvers vegna svefn hefur svona gríðarlega mikil áhrif á heilsu okkar.

Ef hægt verður að skilgreina enn frekar hvernig lengd REM hefur áhrif á heilann er von vísindahópsins að hægt verði að bregðast við og meðhöndla heilahrörnunina. Ef ferillinn sem veldur hrörnuninni er vel skilgreindur er hugsanlega hægt að snúa framgöngu sjúkdómsins við en einnig verður möguleiki á að fyrirbyggja hann.

Áður en við sjáum slíkar framfarir þarf þó að staðfesta þessi áhrif í stærri hóp, en 32 einstaklingar sem tilraunaþýði er því miður mátulega lítill hópur til að tilviljanir geti haft áhrif á niðurstöðurnar. Gallinn við rannsóknir sem þessar er sá að til að sjá raunveruleg mynstur þarf að fylgja sjálfboðaliðunum eftir í mörg ár. Slíkar rannsóknir kosta ekki bara mikla þolinmæði heldur líka mikið fjármagn, en vonandi hefur rannsóknarhópurinn í Swinburne University of Technology í Ástralíu, nóg framboð af hvoru tveggja.