dyslexia

Daniel Britton er ungur breskur hönnuður sem vinnur nú að áhugaverðu verkefni um lesblindu. Hann glímir sjálfur við lesblindur of hefur mætt fordómum gagnvart því í námi sínu. Hann greindist ekki lesblindur fyrr en námi hans var um það bil að ljúka en fram að því hafði hann verið álitinn vitlaus og seinn. Til að upplýsa fólk og opna umræðuna um lesblindu hefur Britton nú búið til leturgerð sem sýnir hvernig stafrófið lítur út í huga þeirra sem glíma við lesblindu.

Munurinn á stafrófi lesblindra og þeirra sem ekki eru lesblindir er um það bil 40%, þ.e.a.s. lesblindir sjá einungis um það bil 60% af hverjum staf. Restin af stafnum gæti hafa farið eitthvert á flakk, þ.e.a.s. þannig kemur það fyrir sjónir þess sem er lesblindur.

Britton segir að leturgerðin sem hann hefur hannað sé kannski ekki nákvæmlega eins hjá öllum lesblindum en tilgangurinn með verkefninu er ekki að leyfa fólki að spreyta sig á lesblindra táknum heldur að gera fólki ljóst hvernig það er að vera lesblindur. Hann bendir á að þegar fólk skilur við hvað átt er við með lesblindu aukast möguleikarnir á því að þróa betri kennsluaðferðir sem mæta þörfum þeirra lesblindu.

Á heimasíðu Daniel Britton má fylgjast með hvernig verkefninu vegnar en einnig er þar hægt að skyggnast inní hugarheim Brittons og hvernig hann upplifir lesblindu auk þeirra lausna sem hann sér fyrir sér að gætu hjálpað öðrum í hans stöðu.

Co.Design fjallaði um verkefnið fyrr í mánuðinum.