Mynd: UPI
Mynd: UPI

Þeir sem hafa einhvern tíma lært fyrir próf hafa vafalaust reynt ýmsar aðferðir til að leggja mikið magn af upplýsingum á minnið á sem skemmstum tíma. Aðferðir eins og að skrifa niður stikkorð, búa til vísur eða rímur eru vel þekktar. Svo gætu líka einhverjir hafa prófað að teikna mynd af því sem þarf að muna, en samkvæmt rannsókn sem birtist í Quarterly Journal of Experimental Psychology ættu þeir að hafa skorað hæst í sínum prófum.

Rannsóknin var unnin við Waterloo háskóla í Kanada. Sjálfboðaliðum var skipt uppí hópa sem voru beðnir um að leggja orð á minnið. Annar hópurinn átti að skrifa orðin endurtekið, og höfðu til þess 40 sekúndur, meðan hinn hópurinn átti að teikna hlutinn sem orðið lýsti á 40 sekúndum. Eftir að orðalistinn var tæmdur fengu þátttakendur aðrar þrautir til að leysa og voru síðan nokkrum mínútum síðar beðin um að rifja upp eins mörg orð og þau gátu á 60 sekúndum.

Í öllum tilfellum gekk þeim betur að rifja upp sem höfðu teiknað orðin. Í sumum tilfellum var fjöldi orða sem þátttakendur gátu rifjað upp tvöfalt fleiri hjá þeim sem höfðu teiknað samanborið við þá sem höfðu skrifað. Engu skipti hvort teikningin heppnaðist vel eða illa, sem bendir til þess að allir geta nýtt sér þessa aðferð óháð listrænum hæfileikum þeirra.

Líklega er teikningin betri aðferð vegna þess að í teikningu felst samhæfing svo margra þátta sem stuðla að minningunni. Þó hér hafi einungis verið um lista af orðum að ræða má leiða að því líkur að það sama gildi þegar stærri hlutir eiga við, en frekari rannsóknir eiga þó eftir að leiða það í ljós.

Þrátt fyrir það hafa ritstjórar Hvatans að minnsta kosti ákveðið að teikna innkaupalistann fyrir næstu búðarferð til að reyna að koma í veg fyrir vonbrigðin sem virðast alltaf fylgja í kjölfarið.