Meðallífaldur okkar mannfólksins hefur aukist jafnt og þétt síðastliðna áratugi. Með meiri þekkingu í tækni, læknavísindum svo ekki sé minnst á öryggisaðbúnaði hefur okkur tekist að lengja meðalaldur okkar vesturlandabúa svo mikið að segja má að við séum í efri þolmörkum líkamans.

Það er nú svo komið að til að auka lífslengd okkar eru það lifnaðarhættir sem spila stærsta rullu. Allir vefmiðlar keppast við að tilkynna okkur hvaða lifnaðarhættir færa okkur mesta hamingju og bestu heilsuna, en er virkilega svona flókið að halda ellikelli frá?

Í langtíma rannsókn sem unnin var við Harvard kemur í ljós að fimm einfaldar lífstílsbreytingar geta bætt rúmlega 10 árum aftan á líf okkar. Rannsóknin náði til rúmlega 100.000 manns á árunum 1980 og 1986 til ársins 2014. Lífstíll einstaklinganna sem tóku þátt var metinn og síðan gerð greining á lífslíkum hvers og eins.

Fimm breytur voru til skoðunar, 1) að vera í kjörþyngd, 2) að hreyfa sig reglulega (30 mínútur á dag), 3) að drekka í hófi (konur minna en 30 ml af víni á dag og karlar minna en 100 ml), 4) borða hollan mat og 5) að reykja ekki.

Samkvæmt rannsókninni voru konur sem fylgdu öllum fimm breytunum taldar hér að ofan líklegar til að lifa til 93 ára aldurs. Ef þær hins vegar gerðu ekkert að ofantöldu var þeim ekki spáð hærri aldur en 79 ára.

Karlar sýndu svipaðar niðurstöður, þó aldur þeirra yrði að öllum líkindum örlítið lægri. Karl sem hlýðir því sem að ofan er talið var talinn líklegur til að lifa til rúmlega 87 ára aldurs meðan sá sem engu hlýðir mun líklega bara ná 75 ára aldri.

Í báðum tilfellum er líklegt að einstaklingar sem fylgja heilsusamlegum lifnaðarháttum séu að lengja líf sitt um 12 – 14 ár, samanborið við einstaking sem gerir hið gagnstæða. Þetta eitt og sér ætti að virka hvetjandi fyrir einhverja til að slökkva í síðustu sígarettunni.

Lifnaðarhættir spila vissulega stóran þátt í að lengja líf okkar en ekki má gleyma að þeir hafa líka afgerandi áhrif á lífsgæði okkar á efri árum. Það að lifa heilsusamlegu lífi þýðir líka að við erum ólíklegri til að fá alls kyns sjúkdóma, við höfum aukna hreyfigetu og almennt meiri getu og orku til að lifa lífinu þegar ellin fer að hellast yfir.