Hiksti getur verið ansi hvimleiður, hann veldur bæði óþægilegum hljóðum, sem geta verið ansi vandræðaleg þegar setið er á fundum eða fyrirlestrum, en að auki verður líkaminn uppgefinn að geta ekki andað eðlilega eftir nokkra stund af hiksta. Mörg ráð hafa verið reynd í gegnum tíðina og margir telja sig hafa töfralausn við þessu kjánalega fyrirbæri, en hvað er rétt?

Það sem gerist við hiksta er að þindin, þunnur vöðvi sem stjórnar öndun, tekur ósjálfráða kippi eða krampa. Þindin liggur rétt undir rifbeinunum og þegar þindin dregst saman þá togar hún lungun niður og út og við það fyllast þau af lofti, þ.e. innöndun. Þegar þindarvöðvinn slaknar falla lungun aftur upp og inn og loftið sem áður fyllti þau ýtist aftur út, útöndun. Við hiksta verður krampi í þindinni, þannig að hún fellur úr takti og lungun togast hratt niður. Þindin er þá að neyða okkur til að anda rosalega hratt að okkur. Við þessa snöggu öndun smella raddböndin saman og við það heyrist hikstahljóðið.

Til að lækna hikstann þarf að endustilla þann hluta taugakerfisins sem stjórnar þindinni. Flökkutaugin eða vagus taug er taug sem liggur niður líkamann frá heila, aftan á hálsi. Þetta er sá hlut taugakerfisins sem stjórnar þindinni og þar með öndun.

Flestar ráðleggingar við hiksta miða að því, þó það sé ekki alltaf augljóst, að hækka magn koldíoxíðs í líkamanum. Þessar aðferðir, eins og að halda niðri andanum eða drekka stórt glas af vatni gera nákvæmlega það. Við þetta fær þindin merki um að nú þurfi að draga djúpt andann og leiðrétta súrefnis/koldíoxíðs hlutföllinn. Oftast núllstillist þá þindin og fer að ganga í eðlilegum takti aftur.

Sumir segja einnig að það hjálpi að gleypa teskeið af sykri. Líklegasta skýringin á virkni þess er að við það erfiða verkefni að gleypa þurran sykur fer flökkutaugin að beina kröftum sínum í barkann í stað þindarinnar og þannig núllstillist vöðvinn.

Í meðfylgjandi myndbandi frá SciShow teyminu eru ofantalin atriði útskýrð á skemmtilegan hátt.