Mynd: http://reallifeglobal.com
Mynd: http://reallifeglobal.com

Ef við værum dýr útí náttúrunni myndum við sennilega óttast eitthvað sem ógnaði lífi okkar eins og rándýr eða náttúruhamfarir, en í nútímasamfélagi snýst ótti oft ekki um slíkar hættur heldur hræðist fólk oft eitthvað sem getur ekki skaðað það eða eitthvað sem nú þegar er liðið. Þessi ótti er s.s. órökréttur og margir eyða miklum tíma og peningum í að sigrast á honum.

Flestar meðferðir í dag sem miða að því að losa fólk við órökréttan ótta snúast um að kenna fólki hversu órökrétt hugsunin er. Fólk er þá látið horfast í augu við ótta sinn eða upplifa það sem það hræðist mest. Þessar aðferðir eru augljóslega ekki til þess fallnar að fólk sækist í þær þó ávinningurinn af því að sigrast á ótta sínum getur verið gríðarlegur og er þá nærtækast að nefna þá sem þjást af áfallastreituröskun.

Í rannsókn sem unnin var m.a. af rannsóknarhópi við Cambridge kemur fram ný aðferð til að losa fólk undan klóm óttans.

Í rannsókninni er órökstudd hræðsla búin til með því að láta þátttakendur upplifa sársauka við það að horfa á tilteknar myndir. Á meðan hræðslan er framkölluð er virkni heilans kortlögð með segulómun. Við þessa myndun sá rannsóknarhópurinn ákveðið mynstur koma fram í heilavirkninni sem gaf til kynna ótta fólksins.

Þegar fylgst var með heilavirkni einstaklinganna við aðrar kringumstæður kom í ljós að mynstrið sem tengdist óttanum kom öðru hvoru ómeðvitað fram hjá þátttakendur. Til að losa fólk við þessa vondu tilfinningu sem óttinn er var notast við jákvæða styrkingu í hvert sinn sem óttaviðbrögðin sáust í heila, þ.e. þegar mynstrið kom fram fengu þátttakendur verðlaun í formi peninga.

Með þessu móti var ætlunin að búa til jákvæða tenginu við þá heilavirkni sem kemur upp þegar orsök óttans er rifjuð upp. Í lok rannsóknarinnar var þátttakendum aftur sýndar myndirnar sem þau voru látin hræðast í upphafi. Í þetta sinn kom ekki fram neitt óttaviðbragð og telur því vísindahópurinn að hræðslunni hafi verið eytt.

Næstu skref eru auðvitað að prófa aðferðina í mun stærra þýði og síðan vonandi með sjálfboðaliða sem þjást af ótta sem ekki hefur verið framkallaður inná rannsóknarstofu. Þessar fyrstu niðurstöður benda þó til þess að í framtíðinni munum við nota mun mildari aðferðir til að lækna ótta en þær að horfast í augu við hann.