Mynd: TPE post
Mynd: TPE post

Þó flestir velji kannski sykurlausa drykki til að forðast inntöku auka hitaeininga þá eru einnig þeir sem forðast sykurinn vegna þeirra áhrifa sem sykur hefur á tennur. Það hefur lengi verið vitað að sykurát getur leitt til skemmda í tönnum, hver man ekki eftir Karíusi og Baktusi sem grátbáðu vin sinn Jens að fá sér smávegis sætindi?

Bragðbættir drykkir hafa þó ekki einungis áhrif á matarforða baktería í munninum, en það er þannig sem sykurinn veldur skemmdum, með því að auka vaxtahraða baktería á tönnunum. Sýrustig drykkjanna skiptir einnig miklu máli og mögulega meira máli en sykurinnihald.

Nýverið birtist stutt umfjöllun um áhrif bragðbættra drykkja á tannheilsu í tímaritinu Oral Health crc. Þar eru teknar fyrir nokkrar tegundir bragðbættra drykkja, þar með talið gosdrykkja sem innihalda sykur og sætuefni ásamt íþróttadrykkjum sem innihalda ekki kolsýru. Til að skoða áhrif drykkjanna á tennur voru heilir jaxlar settir útí drykkina og þyngd og áferð jaxlanna síðan metin.

Í ljós kom að drykkir sem innihalda sætuefni í stað sykurs hafa jafnmikil áhrif á þyngd og áferð tannanna og þeir drykkir sem innihalda sykur. Breytingar á þyngd og áferð tannanna er tilkomin vegna þess að sýran étur upp glerunginn sem umlykur heilbrigðar tennur.

Þessar niðurstöður koma kannski ekki á óvart en þó virðist ekki vera vanþörf á að minna á þær öðru hvoru. Tannheilsa landans hefur sennilega sjaldan verið verri og því er mikilvægt að vera meðvitaður um hvaða áhrif öll þau matvæli sem við setjum uppí okkur geta haft á tennur.