Í daglegu lífi notum við ógrynni tákna til að leiðbeina okkur í gegnum venjulegar aðgerðir. Sem dæmi þekkjum við flest ef ekki öll, rauða og græna kallinn. Á sama hátt notum við tákn á kortum eða skiltum til að rata á ókunnugum slóðum. Sum tákn gefa okkur ekki endilega upplýsingar sem leiðbeina okkur í daglegri hegðun heldur bara upplýsa okkur um hvað er um að vera, eins og kross á kirkjum eða broskallarnir sem við notum í sms-um.

En kortalestur og sms sendingar eru ekki upphaflegur tilgangur táknanna, eða hvað?

Að vissu leiti er kortalestur hluti af því hvers vegna táknin voru fundin upp, í upphafi þróunnar mannskyns tók fólk uppá því að teikna myndir í hellum sínum til að eiga auðveldara með að finna svæði þar sem mikið var um fæðu, svo eitthvað sé nefnt. Þetta hlýtur eiginlega að teljast frekar merkilegt, þar sem engin önnur dýrategund notast svo vitað sé við tákn sér til stuðnings. Reyndar hefur tekist að kenna simpönsum að skilja tákn en simpansar hafa ekki þróað með sér nein tákn sjálfir.

Í myndbandinu hér að neðan sést Darren Curnoe á youtube rás University of New South Wales í Ástralíu, útskýra hvernig tákn hafa verið notuð í gegnum aldirnar.