Í október síðasliðnum fengu þeir Jeffery C. Hall, Michael Rosbach and Michael W. Young Nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir rannsóknir sínar á sameindalíffræðinni sem stýrir líkamsklukku okkar. Mikilvægi líkamsklukkunnar verður betur skilgreint með hverju árinu sem líður en vanstilling hennar hefur verið tengd við ýmsa kvilla eins og t.d. áfengissýki og offitu.

Í nýlegri rannsókn sem unnin var við University of California – Berkeley kemur í ljós að líkamsklukkan getur einnig áhrif á einkunnir nemanda. Rannsóknin var unnin á tæplega 15þúsund manna þýði sem stundaði nám við Northeastern Illinois University á árunum 2014-2016.

Til að byrja með voru einstaklingar innan hópsins skilgreindir sem morgunhanar eða náttuglur eftir því hvernig þeu höguðu sér á frídögum. Stundarskrá hvers og eins var svo borin saman við líkamstakt viðkomandi til að skoða hvort tímasetning einstakra faga hefði áhrif á frammistöðu nemanda.

Um 40% nemandanna fylgdu stundarskrá sem samræmdist einnig líkamstakti þeirra. Helmingur nemendanna féllu í flokkinn náttuglur, sem þýðir að þeirra stundarskrá var að miklu leiti tímasett áður en þeirra frammistaða náði hámarki. Svo var um 10% nemendanna sem líklega voru búin með sinn besta frammistöðutíma þegar þau sátu tíma.

Þegar frammistaða nemendanna var metin kom í ljós að nemendur sem ekki höfðu líkamsklukku í takt við stundarskrá skólans fengu að meðaltali lakari einkunnir í fögum sem kennd voru of snemma/seint, m.v. þeirra líkamsklukku. Með öðrum orðum hefðu þessir einstaklingar getað náð betri árangri ef kennslustundin hefði verið tímasett öðruvísi.

Þessi rannsókn nær yfir mjög stóran hóp og sýnir hversu áhrifamikil líkamsklukkan getur verið. Þekkt er að unglingar og ungt fólk hefur seinkaða líkamsklukku, sem skýrir að vissu leiti þetta háa hlutfall (50%) nemenda sem voru mættu í tíma áður en líkamsklukkan þeirra gat boðið uppá hámarksárangur.

Með því að gera námið einstaklingsmiðaðra eða sveigjanlegra gæti menntakerfið líklega stóraukið árangur þeirra nemenda sem ekki passa inní staðlaðan heim þeirrar klukku sem við látum stjórna okkur í dag. Það má því leiða að því líkur að hægt væri að auka afköst einstaklinga, alls staðar, með því að búa til sveigjanlegri tímaramma í menntakerfinu sem og atvinnulífinu.