low-sex-drive

Í gegnum tíðina hafa vandamál tengd kynlífi, kynhegðun eða kynhvöt lítið verið rannsökuð. Sem betur fer virðist nú vera breyting þar á og rannsóknum, á því sem áður þóttu kannski vandræðaleg vandamál, fer fjölgandi.

Rannsókn sem gerð var á Bandarískum konum við háskólann í Michigan, var nýlega birt í The Journal of Sexual Medicine. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að nægur og góður svefn sé mikilvægur fyrir kynhvöt kvenna.

Í rannsókninni voru 171 kona spurðar útí kynhegðun sína ásamt svefnvenjum. Konurnar höfðu áður notað þunglyndislyf sem þekkt er að hafi áhrif á kynhvöt. Í rannsókninni kom fram að með auka klukkustundar svefni jókst kynhvöt þeirra um allt að 14%. Á hinn bóginn virtist of mikill svefn svo hafa neikvæð áhrif á örvun kynfæra en að meðaltali áttu konur sem fengu meiri svefn í minni vandræðum með örvun kynfæra en þær konur sem fengu of lítinn svefn.

Þó rannsóknin sé gerð á mjög litlu þýði þykir hún gefa góðar vísbendingar um nauðsyn svefns og hvaða áhrif of lítill svefn getur haft á kynhvöt. Úrtakið sem hér var skoðað var þó ekki algjörlega tilviljanakennt, allar höfðu konurnar áður tekið lyf sem hafa þekktar aukaverkanir á kynhvöt og að auki voru allar breytur metnar af þátttakendum sjálfum. Vonir standa til að hægt verði að sannreyna niðurstöðurnar í stærri hóp sem hefði breiðari bakgrunn.