neurons

Margir kannast við að svengd hefur áhrif á skap þeirra. Tilraunir sem gerðar voru í músum við háskólann í Yale gefa til kynna að taugaknippi sem stjórna svengd hafa einnig áhrif á hegðun og þá aðallega áráttuhegðun.

Taugasvæðið er í undirstúku og kallast taugarnar Agrp taugar. Þegar svæðið var örvað tóku mýsnar til við að éta. Hins vegar ef svæðið var örvað og enginn matur var til staðar varð hegðun músanna áráttukennd þrátt fyrir að vera ekki tengd kvíða heldur var hegðunin eins og miðuð að ákveðnum markmiðum.

Niðurstöðurnar tengja svæði í heilanum sem áður voru eingöngu tengd við svengd og át, við mun flóknari hegðun. Telur hópurinn sem Marcelo Dietrich er í forsvari fyrir að þetta geti aukið skilning okkar á röskunum eins og anorexíu og vonandi hjálpað okkur að vinna bug á þeim vanda.

Yale háskólinn sendi frá sér fréttatilkynningu eftir að grein um málið var birt í Cell 5. mars síðastliðinn.