Living Touch Massage
Living Touch Massage

Að hlaupa er góð og vinsæl hreyfing, hún er kannski sérstaklega þægileg vegna þess að hana má stunda hvenær sem manni hentar og til þess þarf ekkert sérstakt mannvirki fyrir utan sæmilega göngustíga. En hlaupin styrkja ekki bara hjartað og lungun, þau styrkja líka heilann.

Í rannsókn sem unnin var við The University of Arizona var heilastarfsemi hlaupara borin saman við heilastarfsemi þeirra sem ekki stunda hlaup. Samanburðurinn fór fram með segulómun.

Það sem rannsóknin leiddi í ljós er að meiri virkni mældist í fremra heilaberki hlauparanna í samanburði við þá sem ekki hlaupa. Í þessum hluta heilans fer meðal annars fram ákvarðanataka, áætlanagerð og „multitasking“ eða að samræma margar aðgerðir í einu. Virkni sem þessi minnir um margt á heilavirkni sem sést hjá t.d. tónlistarfólki sem þarf mikla samhæfingu augna og handa.

Rétt er að geta þess að úrtakið í rannsókninni voru 11 hlauparar og 11 einstaklingar til samanburðar, til að staðfesta niðurstöðurnar þyrfti að endurtaka tilraunina í stærri hóp. Það er þó vissulega áhugavert að hreyfing á borð við hlaup getur örvað heilabúið á þennan hátt. En mögulega væri hægt að nýta þessa þekkingu til að hægja á þróun hrörnunarsjúkdóma á borð við Alzheimer’s, sé gripið nægilega snemma inní.