Við þekkjum það flest að verða stressuð yfir áliti annarra. Margir þekkja tilfinninguna að tala fyrir framan stóran hóp og óttast að allir þeir sem hlusta og horfa eru að dæma mann. Félagsleg höfnun getur verið ansi slæm, svo slæm að hún er mælanleg í líkamlegum viðbrögðum.

Í þau skipti sem fólki dettur í hug að vera með neikvæðar athugasemdir varðandi frammistöðu einstaklings, í slíkum aðstæðum, virkjast viðbragð líkamans sem gengur undir nafninu HPA viðbragð. HPA stendur fyrir Hypothalamus (undirstúka), pituitary (heiladingull) adrenal (nýrnahettur) en það vísar í þær stöðvar líkamans sem stjórna seytun streituhormóna eins og kortisóls.

Í rannsókn sem birtist nýverið í Scientific Reports var virkjun HPA viðbragðsins skoðuð í háskólanemum (öllum karlkyns). Fjöldi þátttakenda voru 90 talsins og voru þeir beðnir um að fara yfir tiltekin málefni fyrir framan einstakling sem átti að dæma frammistöði þeirra.

Viðbrögð þess sem dæmdi þátttakendur fóru fram í gegnum vefmyndavél, svo þátttakendur fengu ekki að sjá viðbörgðin fyrr en eftir að þeir höfðu lokið fyrirlestri sínum. Þátttakendur fengu þá að horfa á myndbönd af viðbröðgum dómaranna og HPA viðbragð þeirra var skoðað á meðan, kortisól í munnvatni var mælit. Að auki var fylgst með blóðþrýstingi þátttakenda.

Frammistöðudómari hafði fengið skýr fyrirmæli um hvernig svipbrigði viðkomandi átti að sýna. Dómarinn átti ekki að segja neitt við þátttakanda, einungis að sýna eitt af þrenns konar brosum, hvatningarbros, velþóknunarbros eða vanþóknunar/ögrandi bros.

Þegar þátttakendur fengu að sjá viðbrögð dómara sinna sýndu þeir sem fengu vanþóknunar og ögrunar viðbrögð sömu vikrni í HPA viðbragðinu og mælist í fólki sem fær neikvæðar athugasemdir við frammistöðu sinni. Þó engin orðaskipti ættu sér stað hækkaði samt sem áður hjartsláttur þátttakanda og kortisól magnið í munnvatni sömuleiðis.

Þessar niðurstöður sýna að svipbrigði og látbragð geta haft jafnmikil áhrif og orð eða gjörðir. Með því að sýna vanþóknun með svip er einstaklingur að gefa jafn mikið í skyn og viðkomandi myndi gera með því að viðurkenna vanþóknun sína með orðum.

Það sem flækir málin kannski svolítið í þessum tilfellum er það að svipbrigði eru háð því að einhver annar túlki þau. Þess vegna getur hugarástand eða félagslegur bakgrunnur þess sem er verið að meta haft áhrif á hvaða ályktun er dregin af svipbrigðum.

Hvernig sem svipbrigði okkar eru túlkuð þá er þessi rannsókn kannski áminning um þau margkveðnu orð að aðgát skal höfð í nærveru sálar og á það við um það sem við segjum sem og það sem við látum í ljós án orða.