Mynd: Collective evolution
Mynd: Collective evolution

Í ljósi þeirra frétta sem skuku heiminn í síðustu viku um skaðsemi unninna matvæla hafa margir beikonaðdáendur lagst í djúpt sorgarferli. En það er þegar kominn tími til að hætta að syrgja og byrja að hlakka til. Mögulega kemur fljótlega á markað þang sem bragðast eins og beikon þegar það er steikt.

Vísindahópur við Oregon State University hefur unnið að því að rækta þang sem æti fyrir sæeyru, sem eru svo nýtt til manneldis. Eins og oft vill verða við rannsóknir verða til hliðarverkefni sem í upphafi engan gat órað fyrir að kæmu til. Eitt slíkt sem myndaðist við þessa rannsókn mun mögulega leiða til mikilla breytinga í matvælaheiminum.

Þangið sem er af sömu ættkvísl og söl og er rautt hefur undirgengist nokkrar prófanir hvað varðar nýtingu þess til manneldis. Stundum er það nýtt hrátt útí salat eða í duftformi sem aukaefni í aðra matvöru. Þangið er fullt af prótíni og fitusýrur sem fást úr sjávarafurðurm hafa oft hátt hlutfall omega-3 fitusýra auk þess inniheldur þang mörg önnur æskilegra aukaefni.

Sú skemmtilega aukaverkun að þangið bragðast eins og beikon mun líklega ekki verða til þess að draga úr vinsældum þess, en ábyggilega eru margar grænmetisætur þarna úti sem hafa nú enga ástæðu til að snúa aftur til kjötheimsins. Enn sem komið er er ekki hægt að kaupa þangið útí búð en þess er væntanlega ekki langt að bíða þar sem einhverjir veitingastaðir hafa þegar tekið það inná matseðil sinn. Einn helsti kostur þangsins er að það vex mjög hratt og kostnaðurinn við að rækta það er ekki gríðarlega hár. Það verður því gaman að fylgjast með þegar þetta nýja og áhugaverða hráefni kemur í hillurnar í verslunum. Það er aldrei að vita nema hin íslenska vara söl muni jafnvel taka við svipuðu hlutverki hérlendis.