Mynd: nJoy Vision
Mynd: nJoy Vision

Alzheimer’s er flókinn taugahrörnunasjúkdómur sem lýsir sér aðallega í minnistapi. Þar sem smávægilegt minnistap er eðlilegur fylgikvilli þess að eldast getur verið erfitt að greina á milli heilbrigðra einstaklinga og þeirra sem eru með Alzheimer’s á byrjunarstigi. Það getur reynst sjúklingum dýrkeypt að greinast of seint því nýjustu lyfin sem komin eru á markað virka best ef minnistapið hefur enn ekki átt sér stað í miklum mæli.

Til að greina Alzheimer’s nota taugasérfræðingar fjölmörg sérhæfð próf til að ná sjúklingunum sem fyrst. Nú eru vísbendingar um að fleiri próf geti bæst í safnið en ný rannsókn bendir til þess að hægt sé að nota lyktarpróf til að greina Alzheimer’s á fyrstu stigum.

Í rannsókninni sem unnin var við University of Pennsylvania voru 16 lyktarprufur notaðar til að athuga hvort lyktarskyn 728 eldri borgara gæti hjálpað til við að greina á milli Alzheimer’s á fyrstu stiga og minniháttar elliglapa. Allir voru þátttakendur eldri borgarar og undirgengust þeir einnig hefðbundin próf hjá taugasérfræðingum til að skilgreina hvort einhver óeðlileg hrörnun væri að hrjá þau.

Í ljós kom að lyktarprufurnar juku nákvæmni taugaprófanna þannig að auðveldara var að greina þá sem voru á fyrstu stigum hrörnunarsjúkdómsins. Þetta þýðir að mögulega verður hægt að nota lyktarskyn sjúklinga í framtíðinni til að ná að greina Alzheimer’s fyrr en nú gengur og gerist.

Næstu skref rannsóknarhópsins eru annars vegar að einfalda prófið, en 16 lyktarprufur eru ansi tímafrekar, og hins vegar að skoða hvort hægt sé að mæla breytinguna í lyktarskyni með því að taka sýni úr nefi. Þá verður skilgreint um leið hvaða breyting það er nákvæmlega sem á sér stað í skynfærinu.