woman-obsessing-over-diet

Stór hluti þjóðarinnar hefur á einhverjum tímapunkti í lífi sínu farið í megrun og annan hvern dag duna yfir okkur skilaboð um hvernig best er að losna við aukakílóin eða hvers vegna er nauðsynlegt að losna við aukakílóin og svo framvegis. En fyrst flestir hafa einhvern tíman farið í megrun, af hverju er þjóðin þá stanslaust að fitna og megrunin virðist engum árangri skila? Ný rannsókn sem birt var í Journal of Health Physiology svarar þessari spurningu, að minnsta kosti að hluta.

Ástæðan er sú að sá hluti heilans sem sér um að skipuleggja matarræðið er nánast alveg óháður þeim hluta heilans sem sér um að velja í matinn.

Þegar við setjumst niður og hugsum okkur hvað á að vera í matinn þá vitum við að hollur matur er betri kostur en óhollur matur og á þeim tímapunkti þegar við setjum saman hollustumatseðil erum við að nota rökhugsun sem segir okkur að borða hollt. Hins vegar þegar við eldum matinn eða kaupum í matinn eru það tilfinningar sem stjórna ferðinni að miklum meirihluta, þ.e. við notum það sem okkur finnst bragðgott og kaupum það sem hefur áður vakið hjá okkur góðar tilfinningar, eins og t.d. gott bragð. Þess vegna fer allt annar hluti heilans með valdið á þeim tímapunkti.

Þegar fólk ákveður að fara í megrun og setur saman matseðil sem á að valda hrapi í kílóafjölda gleymist oft að gera ráð fyrir því hvað okkur finnst gott að borða. Auðvitað getur farið saman, það sem er gott að borða og það sem er hollt að borða. En í hvert skipti sem megrunarmatseðill er settur saman á þennan hefðbundna hátt erum við að binda neikvæðar tilfinningar við matinn sem við ætlum að setja ofan í okkur. Svo þegar kemur að því að borða hann höfum við ekki mikinn áhuga og bragðið verður ekki uppá marga fiska.

Svo hvað er til ráða? Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að borða það sem er hollt OG okkur þykir gott. Í öðru lagi er mikilvægt að vera meðvitaður um það að láta tilfinningar gagnvart matnum ekki ráða för og ekki leyfa geðþóttaákvörðunum í búðinni taka völdin. Það er gott að borða hollt, en lífið má ekki vera svo strangt regluverk að við getum aldrei notið þess að borða mat og eiga góða stund með vinum eða fjölskyldu.