Mynd: Genius Awakening
Mynd: Genius Awakening

Þunglyndi er líklega útbreiddari sjúkdómur en við gerum okkur grein fyrir. Hann lýsir sér aðallega í óeðlilegri depurð og vanlíðan þeirra sem af honum þjást. Lengi vel hafa þeir sem berjast við þunglyndi, sem og aðra andlega sjúkdóma, barist fyrir því að fá ástand sitt viðurkennt sem veikindi. Nýlega var birt rannsókn í Journal of Clinical Psychiatry sem styður svo sannarlega við þá baráttu og sýnir að andlegir kvillar hafa einnig áhrif á líkamlegt ástand.

Í rannsókninni var gögnum safnað úr 29 rannsóknum, þar sem samtals um 2500 einstaklingar með þunglyndi voru bornir saman við um 1500 heilbrigða einstaklinga. Í öllum rannsóknunum var verið að skoða mun á styrk oxandi efna í lífsýnum viðfangsefnanna.

Það er eðlilegt að oxandi efni myndist í líkamanum, það gerist við hefðbundin efnahvörf og þess vegna hefur líkaminn leiðir til að losa sig við þau. Hins vegar verður álag á kerfinu þegar styrkur oxandi efna verður of mikill og þá eykst hættan á því að efnin fari að valda óskunda á borð við stökkbreytingum á erfðaefninu.

Í ljós kom að einstaklingar með þunglyndi voru með hærri styrk oxandi efna en heilbrigðu viðmiðin. Að sama skapi voru kerfi líkamans sem losa okkur við oxandi efni að finna í mun meira magni í lífsýnum þunglyndissjúklinganna. Þegar meðferð hófst svo hjá viðkomandi, þ.e. lyfjameðferð gegn þunglyndinu minnkaði styrkur efnanna.

Þessar niðurstöður sýna að þunglyndi hefur áhrif á meira en bara andlega líðan og gæti þetta skýrt hvers vegna fylgni er milli þunglyndis og annarra líkamlegra kvilla á borð við krabbamein. Sé rétt meðferð viðhöfð eru samt allar líkur á því að þunglyndir einstaklingar þurfi ekki að hafa meiri áhyggjur af veikindum en hver annar, þ.e.a.s. sjúkdómurinn hefur ekki áhrif á líkamlegt ástand þegar hann er meðhöndlaður.