cigarette

Rannsókn á yfir 200.000 manns í Ástralíu, sem birt var í BCM Medicine, hefur leitt í ljós að allt að tveir af hverjum þremur reykingamönnum deyr af völdum reykinga.

Í rannsókninni, sem er hluti af stærri rannsókn um öldrun, voru gögn um 204.953 manns skoðuð á fjögurra ára tímabili. 7,7% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni voru reykingamenn og 34,1% fyrrum reykingamenn. Niðurstöðurnar sýndu að það að reykja 10 sígarettur á dag tvöfaldaði dánarlíkur og pakki á dag fjór- til fimmfaldaði þær.

Emily Banks, fyrsti höfundur greinarinnar, sagði í fréttatilkynningu niðurstöðurnar sýna fram á að reykingamenn séu þrefalt líklegri til að deyja fyrir aldur fram en þeir sem hafi aldrei reykt. Einnig kom í ljós að reykingamenn deyja um 10 árum fyrr en þeir sem ekki reykja.

Niðurstöðurnar voru þó ekki eingöngu neikvæðar. Með tímanum minnkuðu líkurnar á að deyja fyrir aldur fram hjá fyrrum reykingamönnum og þeir sem hættu að reykja fyrir 45 ára aldur höfðu nánast sömu lífslíkur og þeir sem aldrei höfðu reykt.