cat-listening-to-headphones-funny-animal-pictures

Í gegnum tíðina hefur fólk reynt að nota tónlist til að hafa áhrif á hegðun dýra. Gallinn er sá að dýr hafa ekki sama tónlistarsmekk og við.

Rannsóknarhópum við Wisconsin háskóla og háskólann í Marylanda hefur nú tekist að búa til tónlist sem heimilisköttum finnst gott að hlusta á. Tilgáta rannsóknarhópsins var sú að til þess að tónlist höfði til annarra tegunda þurfi hún að vera á tíðnisviði með svipan takt og tegundin notar í samskiptum sín á milli.

Spiluð voru tvö „mannalög“ (Air on a G string eftir Johann Sebastian Bach og Elegie eftir Gabriel Fauré) og tvö frumsamin „kattalög“ fyrir 47 heimilisketti. Í ljós kom að kettirnir virtust hrifnari af kattatónlistinni sem vísindamennirnir sömdu en af hefðbundinni mannatónlist. Þegar mannatónlistin var spiluð sýndu þeir lítil sem engin viðbrögð en þegar kattatónlistin var spiluð nálguðust þeir hátalarana og nudduðu sér jafnvel uppvið þá.

En af hverju ættu vísindamenn að eyða tíma í að semja tónlist fyrir ketti? Talsmaður rannsóknarhópsins bendir á að niðurstöðurnar sýni fram á nýja og líklega heppilegri aðferð til að nota tónlist sem hljóðræna auðgun í dýrum. Sérsamin tónlist gæti því, til dæmis, verið gagnleg til þess að minnka streitu hjá dýrum.

Áhugasamir geta hlustað á tónlistina úr rannsókninni hér og jafnvel spilað hana fyrir heimilisköttinn. Greinina má síðan finna hér.