image

Discovery News birti nýlega lista yfir langlífustu dýr jarðar. Við mennirnir komumst ekki einu sinni á blað enda getur dýrið sem er neðst á listanum lifað í 140 ár. Á listanum eru eingöngu dýr sem vísindamönnum hefur tekist að meta nákvæmann aldur hjá svo líklegt er að önnur dýr eigi heima á honum, til dæmis ákveðnar tegundir svampa.

Eins og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni er eingöngu eitt spendýr, norðurhvalur (#2, e. bowhead whale), sem kemst á listann. Áhugavert er að dýrin á listanum eiga flest tvennt sameiginlegt. Flest dýranna lifa í vatni, að undanskildum skjaldbökutegundunum tveimur. Auk þess eiga dýrin það sameiginlegt að þau vaxa og fjölga sér hægt.

Stærð virðist ekki skipta máli þegar kemur að lífslíkum en mikil fjölbreytni er í stærð dýranna. Munurinn á stærsta og minnsta dýrinu er gríðarlega mikill: skel kúfskeljarinnar (#1, e. ocean quahog) getur verið 50 mm há en lengd norðurhvalsins allt að 18 metrar.

Segja mætti að Íslendingar eigi langlífasta dýr jarðar en kúfskelin sem vermir fyrsta sætið finnst einmitt við strendur Íslands og ber latneska heitið Arctica islandica.

Listinn er eftirfarandi:

1. Kúfskel, Arctica islandica: 400 ár
2. Norðurhvalur, Balaena mysticetus: 211 ár
3. Karfi af tegundinni Sebastes aleutianus: 205 ár
4. Ígulker af tegundinni Mesocentrotus franciscanus: 200 ár
5. Galapagos skjaldbakan, Chelonoidis nigra: 177 ár
6. Karfi af tegundinni Sebastes borealis: 157 ár
7. Styrja af tegundinni Acipenser fulvescens: 152 ár
8. Aldabra risaskjaldbaka, Aldabrachelys gigantea: 152 ár
9. Búrfiskur, Hoplostethus atlanticus: 149 ár
10. Durgur, Allocyttus verrucosus: 140 ár

Heimild: Science Alert