Mynd: Oxford Dictionaries
Mynd: Oxford Dictionaries

Tvíburar hafa löngum verið viðfangsefni vísindanna vegna þess að með því að rannsaka eineggja tvíbura er hægt að skoða áhrif umhverfi og erfða sem gengur ekki ef t.d. um systkini er að ræða. Í nýrri rannsókn sem framkvæmd var við University of Washington er nýtt sjónarhorn tekið á tvíburarannsóknir en þar var skoðað hvaða áhrif það hefur á lífslíkur að vera tvíburi.

Í rannsókninni sem birtist í Plos ONE var lífshlaup tæplega 3000 danskra tvíbura skoðað, tvíbura sem voru fæddir á tímabilinu 1870-1900 og lifðu a.m.k. fram yfir 10 ára aldur. Með því að skoða tvíbura sem voru fæddir fyrir aldamótin 1900 var það tryggt að öll viðfangsefnin höfðu klárað sitt æviskeið.

Í ljós kom, þegar tvíburar voru bornir saman við almennt danskt þýði, að bæði eineggja og tvíeggja tvíburar lifðu marktækt lengur að meðaltali en þeir sem ekki voru tvíburar. Eineggja tvíburar virtust þar að auki lifa örlítið lengur en þeir sem voru tvíeggja.

Rannsóknarhópurinn telur að þessi munur endurspegli þá kosti sem fylgja því að vera með gott félagslegt kerfi í kringum sig. Þessar niðurstöður mætti því segja að væru í samræmi við rannsóknir sem sýna að giftir einstaklingar lifa heilsusamlegra lífi. Í þeim tilfellum er þó erfitt að dæma um hvort fólk sem lifi heilsusamlegu líferni sé líklegra til að gifta sig eða hvort það að vera giftur stuðli að heilsusamlegu líferni. Í tvíburarannsóknum er hægt að útiloka það að fólk sem lifi lengur sé líklegra til að velja sér að vera tvíburi, þar sem einstaklingar ráða ekki mikið við það.

Það að hafa félagslegt öryggi, sem felst m.a. í góðu stuðningsneti fjölskyldu og vina, getur skipt sköpum í því hvers konar líferni við stundum. Það er því ekki órökrétt að telja að þeir sem eiga sér svo náinn félaga sem tvíburar geta verið, búi að betra félagslegra öryggi en einburar.