Mynd: J.N. Paquet
Mynd: J.N. Paquet

Heilablóðfall er það kallað þegar stífla í slagæðum í heila valda súrefnisþurrð á tilteknum stöðum í heilanum. Við þessar aðstæður getur súrefnisþurrðin varað svo lengi að varanlegur skaði hlýst af. Staðsetning stíflunnar ræður því hvaða heilastöð verður fyrir skaða og þar af leiðandi á hvaða eiginleika slagið hefur áhrif.

Rannsókn sem unnin var á Indlandi í samstarfi við breskan vísindahóp sýnir að einstaklingar sem eru tvítyngdir jafna sig fyrr eftir heilablóðfall en einstaklingar sem tala einungis eitt tungumál.

Rannsóknin tók til 608 einstaklinga sem höfðu fengið heilablóðfall í borginni Hyderabad á Indlandi. Borgin er sérstök fyrir þær sakir að þar eru töluð mörg tungumál og hlutfall þeirra sem tala fleiri en eitt tungumál er mjög hátt. Samkvæmt rannsóknarhópnum skipti miklu máli fyrir bata einstaklinganna að kunna fleiri en eitt tungumál. Líklegt er talið að þessi fylgni sé tilkomin vegna þess að heilinn þarf mikla þjálfun til að geta skipt snöggt á milli tungumála. Þessar niðurstöður eru í samræmi við það að tvítyngdir einstaklingar eru síður líklegir til að þróa með sér Alzheimer’s sjúkdóm.

Samkvæmt þessu er mikilvægt að reyna að þjálfa heilann, ekki bara með því að læra nýtt tungumál heldur með alls kyns hugarleikfimi á borð við krossgátur, stærðfræðiþrautum eða öðru sem vitað er að reynir á heilastarfsemina.