Margir kannast við að horfa öfundaraugum á barnavagna sem rugga eftir götunum – hversu notalegt hlýtur það að vera að liggja í svona vagni og láta vagga sér í svefn?

Þetta er ekki ósvipað þeirri tilfinningu sem hellist einhverra hluta yfir mann í strætó, marrið í vagninum, hitinn og hið ómissandi rugg vagnsins hefur þessi áhrif á mann.

Það eru a.m.k. niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var sem samvinnuverkefni háskólanna í Genf og Lausanna í Sviss. Rannsóknin var birt í Current Biology, en í henni voru 18 heilbrigðir einstaklingar fengnir til að taka þátt í svefnrannsókn.

Sjálfboðaliðarnir voru annars vegar látnir sofa í hefðbundnu rúmi og hins vegar í rúmi sem bjó til temmilega rugghreyfingu. Allir sjálfboðaliðarnir prófuðu báðar meðferðir. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvort það hefði áhrif á svefn sjálfboðaliðanna að vera vaggað í svefn.

Í ljós kom að ruggið hafði töluverð áhrif á svefn sjálfboðaliðanna. Í fyrsta lagi voru þeir marktækt fljótari að sofna þegar þeim var ruggað, samanborið við þegar þeir sváfu í hefðbundnum rúmum. Auk þess virtust sjálfboðaliðarnir fá betri nætursvefn, með lengri tíma í djúpsvefni og færri tilfellum þar sem þeir vöknuðu.

Þegar sjálfboðaliðarnir voru svo beðnir um að þreyta minnispróf að morgni dags kom í ljós að það að vera vaggað í svefni bætti minni þeirra töluvert.

Hér að um mjög lítið úrtak að ræða og því erfitt að ákvarða hversu mikil þessi áhrif eru í raun og veru. Hins vegar rýma þessar niðurstöður mjög vel við aðra rannsókn, sömu vísindahópa, sem framkvæmd var á músum. Mýsnar virtust reyndar ekki upplifa færri tilfelli þar sem þær vöknuðu. Þær voru þó mun fljótari að festa svefn meðan þeim var ruggað, á sama hátt og mennskir sjálfboðaliðar.

Þessar niðurstöður gefa að minnsta kosti vonir um mikla sölu á fullorðnis barnavögnum, svona ef einhver þarna úti hafði hugsað sér að setja slíkt snilldartæki í framleiðslu.