Mynd: Snoron.com
Mynd: Snoron.com

Þegar Norður Kórea lýsti yfir ánægju sinni með nýjustu kjarnorkusprengjutilraun sína fóru strax að heyrast efasemdarraddir frá vestrænum ríkjum. Bandaríkjamenn voru fljótir að útiloka að um vetnissprengju gæti verið að ræða. En hvernig meta sérfræðingar á þessu sviði hvort um vetnissprengju hafi verið að ræða?

Í fyrsta lagi væri kraftur vetnissprengjunnar margfalt meiri en kraftur sprengjunnar sem Norður Kóreu menn sprengdu í vikunni. Vetnissprengjur eru þannig úr garði gerðar að þar er notast við kjarnasamruna vetnissameinda (fusion bombs). Slíkar sprengjur eru yfirleitt settar af stað með annars konar kjarnorkusprengjum sem byggja á kjarnaklofnun (fission bombs). Við kjarnaklofnun eru yfirleitt nýtt þung og geislavirk frumefni. Það er því mögulegt að Norður Kóreu menn hafi verið að sprengja kjarnorkusprengju af síðarnefndu týpunni, sem mögulega átti að kveikja á vetnissprengjunni, en mistókst. En hefði sú tilraun gengið upp hefði sprengingin orðið miklu öflugri.

Til að meta hvað hefur raunverulega átt sér stað bíða sérfræðingar nú eftir gögnum úr mælum sem mæla geislavirkni í andrúmslofti. Agnir og gastegundir frá sprengjum sem þessum ferðast um andrúmsloftið og er safnað í ákveðna mæla sem eru staðsettir víðs vegar um heiminn en 80 slíkar stöðvar eru til um allan heim. Það gæti tekið nokkra daga að fá svör úr mælunum, bæði tekur tíma fyrir agnir frá sprengjunni að ná til mælanna og svo tekur mælingin sjálf einnig smá tíma, eins og útskýrt er í myndbandinu hér að neðan.

Þó enn sé beðið eftir niðurstöðum mælinga geta sérfræðingar samt sem áður sagt með fullri vissu að ekki var um vetnissprengju að ræða, hins vegar er ekki hægt að útiloka að Norður Kórea búi samt sem áður yfir slíkum vopnum og það vekur eins og gefur að skilja ugg meðal annarra þjóða.

Heimildir
ScienceInsider
ScienceAlert