bored-kids

Börn eru látin sitja við skólaborð og læra allan daginn í skólanum. Þau fá reyndar frímínútur inná milli sem margir telja lífsnauðsynlega og að auki mikilvæg hvíld fyrir heilann svo lærdómurinn geti haldið áfram það sem eftir lifir dags.

Nú þegar hafa einhverjir skólar í Bandaríkjunum tekið uppá því að vera með skólaborð sem eru nógu há svo möguleiki sé að standa við borðið, en hafa svo einnig áfastan koll eða stól svo hægt sé að setjast. Upphaflega voru borðin hönnuð af Mark Benden og samstarfsfólki, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir fylgikvilla hreyfingaleysis eins og offitu barna. En nýleg rannsókn sem unnin var við Texas A&M bendir til að borðin hafi fleiri góðar afleiðingar í för með sér.

Fylgst var með u.þ.b. 300 börnum í grunnskólum í Texas, í 2. til 4. bekk, til að meta frammistöðu þeirra í skólanum við annars vegar venjuleg skólaborð og hins vegar við borð þar sem möguleiki var á að standa. Í ljós kom að börn sem höfðu möguleikann á að standa við kennsluna stóðu sig að jafnaði 12% betur í tímum en þau sem einungis gátu setið. Frammistaðan var metin útfrá því hversu oft börnin svöruðu spurningum, réttu upp hönd eða tóku þátt í umræðum svo eitthvað sé nefnt.

Í raun ættu þessar niðurstöður ekki að koma á óvart þar sem hreyfing hefur oft verið tengd við aukna vitræna getu, það er þó mikilvægt að staðfesta þennan grun. Nú verður gaman að sjá hvort fleiri skólar eða vinnustaðir, þar sem mikið er unnið við skrifborð, fara að taka upp þessa aðferð til að auka afköst.