passportphoto

Hver kannast ekki við að reyna að velja sér nýja prófílmynd á facebook og finna enga mynd í bunkanum sem sýnir rétt útlit. Að sama skapi hafa örugglega flestir séð myndir af sér birtast á netinu þar sem þeir kannast ekkert við viðkomandi á myndinni. Það er kannski ekkert undarlegt við þetta, því ný rannsókn gefur til kynna að við erum mjög léleg í að velja myndir sem líkjast okkur.

Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var við University of New South Wales í Ástralíu. Í henni voru 130 nemendur við skólann beðnir um að raða 10 myndum af sjálfum sér eftir því hver líktist þeim best og hver verst. Eftir það voru óháðir aðilar fengnir til að skoða myndband af nemendunum, þar sem tvær myndir voru teknar, og meta svo sömu 10 myndir og nemendurnir eftir því hvaða mynd líktist viðkomandi best.

Í ljós kom að óháðir aðilar, sem þekktu ekki til nemendanna röðuðu myndunum af viðkomandi á allt annan hátt en nemandurnir sjálfir. Að auki var tölvurforrit notað til að bera saman myndirnar 10 við myndirnar sem teknar voru í myndbandinu og tölvuforritið var sammála óháðu aðilunum um það hvaða myndir endurspegluðu raunverulegt útlit nemendanna.

Þó við sjáum okkur á hverjum degi í speglinum þá höfum við greinilega ekki jafn góðar forsendur til að meta útlit okkar og ókunnugt fólk. Að vissu leiti er vel hægt að sjá hvers vegna, við erum sjálf lituð af ákveðnum forhugmyndum um okkur sjálf. Ókunnugir hafa ekki langan tíma til að velja úr þau atriði við andlit okkar sem standa uppúr og eru því betur til þess fallin að til dæmis velja mynd fyrir okkur í vegabréfið eða á facebook prófílinn.