Mynd: Kotaku
Mynd: Kotaku

Flest leitumst við við að verða hamingjusöm í lífinu. Það virðist oft vera ansi erfið þraut að finna hamingjuna þar sem engum sérfræðingi hefur tekist að skilgreina nákvæmlega í hverju hamingjan felst, réttu starfi, réttum maka, nægum peningum eða réttri fatastærð? Fyrir þau sem enn eruð að leita og finnst leitin engan enda ætla að taka, örvæntið ekki því ný rannsókn bendir til þess að hamingjuna sé einmitt að finna í því að eldast.

Þó rannsóknin skilgreini ekki nákvæmlega í hverju hamingjan felst þá sýnir hún að hamingja fólks og ánægja þess með lífið eykst línulega með aldri alla ævina á enda. Þetta á við jafnvel þó bæði hugur og líkami sé farinn að gefa undan tímans tönn.

Það kom rannsóknarhópnum við University of California, San Diego nokkuð á óvart að þetta skildi vera niðurstaðan þar sem margir sjá fyrir sér að lífsgleðin nái ákveðnum hápunkti um miðjan aldur einmitt áður en líkaminn fer að klikka og eftirsjá um það sem ekki var gert fer að láta á sér kræla.

Hamingjan og mælikvarði á hana er auðvitað mismunandi eftir einstaklingum en getur kannski verið að það sem þessi rannsókn sýnir okkur er að þegar við hættum að hafa áhyggjur af því að vinna lífsgæðakapphlaupið sem virðist vera okkur svo mikilvægt á yngri árum þá förum við að njóta litlu hlutanna sem við getum upplifað daglega án mikillar fyrirhafnar eða kostnaðar.

Það eru kannski ágætis skilaboð inní þennan dásemdar sunnudag að njóta líðandi stundar og láta ekki samkeppnina og hraðann í samfélaginu hlaupa með sig í gönur.