Mynd: Landslag
Mynd: Landslag

Málstofa sem ber fyrirsögnina: Opin vísindi. Hvað verður um rannsóknargögnin þín? verður haldin 11. nóvember næstkomandi. Tilefni málstofunnar er að ræða kosti og galla þess að opna aðgang að rannsóknarniðurstöðum.

Eitt helsta hlutverk vísindamanna er að miðla þeim niðurstöðum sem fást úr rannsóknum þeirra, svo hægt sé að nota niðurstöðurnar til grundvallar frekari rannsókna eða jafnvel til að auka lífsgæði almennings, svo eitthvað sé nefnt. Í dag birtast flestar rannsóknarniðurstöður í ritrýndum vísindatímaritum sem oft þarf að greiða fyrir aðgang að. Með slíkum birtingum verður því oft birtingaskekkja þar sem mikil samkeppni er um að hverja síðu og því komast ekki allar rannsóknarniðurstöður á prent. Umræða um að gera aðganginn opnari hefur átt sér stað undanfarinn áratug hér á landi og hafa einhver skref verið tekin í þá átt.

Einn helsti fyrirlesari viðburðarins er Stuart Lewis frá háskólanum í Edinborg, en sú stofnun hefur verið í fararbroddi við að opna aðgang að rannsóknar gögnum. Að auki verða íslenskir vísindamenn með erindi.

Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Heilbrigðisvísindabókasafn og OpenAIRE standa fyrir málstofunni sem verður haldin í Fyrirlestrarsal Þjóðarbókhlöðunnar þann 11. nóvember eins og fyrr segir. Málstofan hefst klukkan 15:00 og er öllum opin. Nánari dagskrá má finna á heimasíðu lífvísindaseturs.