480px-Virginia_200.svg

Nýtt vísindatímarit, the Journal of Brief Ideas, birtir eingöngu greinar sem eru 200 orð eða minna. David Harris, eðlisfræðingur, stofnaði tímaritið því hann vildi skapa vetvang þar sem vísindamenn gætu birt hugmyndir sínar hraðar en áður hefur verið hægt.

Þetta nýja tímarit er ekki bara gleðiefni fyrir þá sem nenna ekki að lesa langar og illskiljanlegar vísindagreina. Það gæti auðveldað vísindamönnum að sjá að hvort aðrir innan vísindageirans eru að vinna að svipuðum verkefnum og þeir sjálfir. Þetta gæti til dæmis komið í veg fyrir það að tveir rannsóknarhópar vinni að sömu hugmynd án þess að vita það en auk þess skapað möguleikann á því að birta hugmynd sína snemma í ferlinu til þess að koma í veg fyrir deilur seinna meir um það hver átti tiltekna hugmynd fyrstur.

Hægt er að vitna í greinarnar sem birtar eru í the Journal of Brief Ideas líkt og hefðbundnar vísindagreinar þar sem að þeim er úthlutað DOI (digital object identifier) númeri, einskonar kennitölu fyrir greinina, líkt og hefðbundnum vísindagreinum. Greinarnar í tímaritinu eru þó ekki ritrýndar eins og er hefð fyrir hjá vísindatímaritum.

The Journal of Brief Ideas er áhugaverð viðbót í flóru vísindatímarita og verður spennandi að sjá hvernig því verður tekið innan vísindasamfélagsins.