6360489455192162291563850737_trump

Nú þegar vika er í forsetakosningar í Bandaríkjunum er brugðið á ýmis ráð til varpa neikvæðu ljósi á forsetaframbjóðendurna Hillary Clinton og Donald Trump. Sá síðarnefndi hefur verið sérstaklega mikið á milli tannanna á fólki, meðal annars vegna skoðana sinna á vísindum.

IFL Science tók saman lista yfir þær vísindalegu kenningar og staðreyndir sem Trump trúir ekki að séu sannar og má sjá nokkrar þeirra hér að neðan.

Loftslagsbreytingar

Hlýnun Jarðar af mannavöldum er talin vera staðreynd af yfirgnæfandi meirihluta vísindamanna um allan heim. Trump segist þó vera þeirrar skoðunar að um sé að ræða samsæri og hefur sagt að Kínverja hafi fundið upp á því.

Þetta verður að teljast afar ólíklegt í ljósi þess að fjöldi vísindasamtaka gefa út gögn sem sýna tengslin á milli losunar gróðurhúsalofttegunda og loftslagsbreytinga með reglulegu millibili og mikill fjöldi rannsókna sýnt fram á tengslin. Auk þess hafa Kínverjar sjálfir skrifað undir loftslagssáttmálann frá því á loftslagsráðstefnunni í París fyrra sem kæmi sér illa fyrir þá ef þeir hyggðust græða á samsærinu sjálfir.

Líklegt þykir að Trump trúi ekki eigin staðhæfingum heldur eigi þær fremur rætur í aðdáun hans á því að græða sjálfur pening með því að nota ódýra óendurnýtanlega orkugjafa á borð við kol.

Umhverfismál

Trump virðist einnig vera á móti umhverfismálum almennt. Aðspurður um hvaða stofnun Trump myndi leggja niður yrði hann forseti var „Department of Environmental“ efst á blaði sem er að vísu ekki til. Að auki hefur Trump sagst vera hlynntur gasvinnslu með bergbroti (e. fracking) sem er afar umdeild vinnslutækni út frá umhverfissjónarmiðum.

Bólusetningar

Þrátt fyrir að fyrir löngu sé búið að hrekja það að bólusetningar valdi einhverfu er Trump enn á þeirri skoðun. Síðastliðinn september vísaði hann til þess máli sínu til stuðnings að samstarfsfólk hans ætti einhverfan dreng og telur hann að bólusetning hafa valdið einhverfunni.

Skoðanir sem þessar eru afar hættulegar lýðheilsu enda geta þær leitt til lægri tíðni bólusetninga sem getur haft áhrif á hjarðónæmi og aukið líkur á að sjúkdómar sem tekist hefur að halda niðri skjóti upp kollinum á ný.

Svefn

Svefn er eitthvað sem við þurfum öll á að halda. Trump virðist þó vera yfir það hafinn að fá góðan nætursvefn og hefur til dæmis haldið því fram að hann sofi aðeins í þrjár til fjórar klukkustundir á nóttu.

Svefnleysi hefur mikil áhrif á starfsemi líkamans. Þar má meðal annars nefna neikvæð áhrif á rökhugsun, erfiðleika með að hafa stjórn á tilfinningum auk neikvæðra áhrifa á langtímaminni.

Sé það rétt að Trump sofi eins lítið og hann segir sjálfur útskýrir það kannski að einhverju leiti hegðun hans í kosningabaráttunni.