content-1490986227-camera

Vísindamönnum í Kóreu hefur tekist að stýra hreyfingum skjaldböku með huganum. Tæknin gæti meðal annars nýst í björgunaraðgerðum í framtíðinni.

Þess nýstárlega aðferð byggir á því að nýta flótta- eða árásarviðbragð (e. fight or flight) dýrsins. Myndavél var komið fyrir á skjaldbökunni og gat manneskja því fylgst með því í rauntíma hvað var að gerast í umhverfi hennar. Manneskjan þurfti síðan aðeins að hugsa um það hvað hún vildi að næstu skref skjaldbökunnar væru, það er hvort dýrið ætti að hreyfa sig til hægri, vinstri eða vera kyrrt. Hugsunin var lesin af tölvu og send í gegnum þráðlaust net í viðtaka á skel skjalbökunnar.

Þegar boðin bárust til viðtakans hreyfðist einskonar hjálmur með rifu, sem sjá má á myndinni hér að ofn, á skjaldbökunni ýmist til hægri eða vinstri og færði skjalbakan sig ósjálfrátt í átt að opinu á hjálmnum í átt að ljósi. Vísindamönnunum tókst að láta tæknina virka úr töluvert mikilli fjarlægð eða allt að fimm kílómetra.

Áður hefur vísindamönnum tekist að fjarstýra kakkalökkum með því að setja rafskaut í heila þeirra en þessi aðferð er töluvert betri út frá dýravelferðarsjónarmiðum. Vonir standa til að hægt verði að nota tækni svipaðri þessari í til dæmis björgunaraðgerðum, viðbótarveruleika (e. augmented reality) og hernaðareftirliti í framtíðinni.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í tímaritinu Journal of Bionic Engineering.