Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sett lækkandi tíðni bólusetninga á lista yfir tíu stærstu heilsu ógnir mannkyns árið 2019. Listinn, sem WHO birti á heimasíðu sinni nýlega hefur að geyma 10 alvarlegustu heilsufarsógnir mannkynsins.

Meðal þess sem talið er á listanum er mengun, hlýnun jarðar, heilsufarskvillar tengd ofþyngd og slæmt aðgengi að heilsugæslu, svo eitthvað sé nefnt. Það er augljóst að ógnin er mismunandi eftir því hvar við erum stödd í heiminum, en vesturlandaþjóðir horfast kannski frekar í augu við ógnir vegna ákvarðana almennings. Þeirri þróun er vonandi hægt að snúa við með aukinni fræðslu.

Eitt af því sem WHO tiltekur á listanum er seinagangur foreldra til að láta bólusetja börnin sín, eða það sem er kallað bólusetningarhik. Þegar börn eru ekki bólusett myndast nefnilega tækifæri fyrir sýkla til að smita fjölda einstaklinga sem undir venjulegum kringumstæðum ættu að vera verndaðir í gegnum svokallað hjarðónæmi.

Hjarðónæmi er eiginlega æðsta markmið bólusetninga. Þegar nægilega stórt hlutfall þýðisins er bólusett eru líkurnar á því að sýkillinn komi upp orðnar mjög litlar. Það þýðir að þeir einstaklingar sem einhverra hluta vegna geta ekki fengið bólusetningu eru samt sem áður varðir gegn smiti.

Ástæður þess að fólk hikar við að láta bólusetja börnin sín geta verið fjölmargar. Sennilega er sú algengasta, a.m.k. hér á Íslandi hreinlega sú að það gleymist.

Þó er það svo að stækkandi hópur velur að sleppa ungbarnabólusetningum vegna áróðurs um áhættuna sem fylgir henni. Slíkur áróður er byggður á röngum forsendum sem hafa margsinnis verið hraktar, en einhverra hluta vegna lifa samt góðu lífi í ákveðnum kimum samfélagsins.

Fyrir þá sem vilja kynna sér kosti og galla bólusetninga betur þá mælum við með umfjöllun um efnið hér á Hvatanum: 5 staðreyndir um bólusetningar, Eru bólusetningar slæmar?, Bólusetningar og einhverfa og  Hvað fær fólk til að tala gegn bólusetningum?

Á vef landlæknisembættisins má svo lesa sér til um ungbarnabólusetningar á Íslandi, innihald þeirra sem og aukaverkanirnar sem þeim fylgja.