Mynd:  KA Photography KEVM111, Shutterstock
Mynd: KA Photography KEVM111, Shutterstock

Blettatígrar eru þekktir fyrir að vera hraðskreiðustu dýr jarðar en það er ekki það eina sem gerir þá merkilega. BBC tók í vikunni saman fimm merkilegar staðreyndir um blettatígra sem má sjá hér að neðan.

  1. Þó flestir tengi blettatígra við Afríku er einnig að finna undirtegund í Íran. Írönsku blettatígrarnir (Acinonyx jubatus venaticus) eru sárafáir og eru í bráðri útrýmingarhættu. Talið er að aðeins 60-100 dýr séu eftir í náttúrunni.
  2. Lífslíkur afkvæma blettatígra eru afar slæmar og eru aðeins um 5% þeirra sem ná fullorðinsárum, samkvæmt niðurstöðum tveggja rannsókna. Oft á tíðum eru það ljón sem drepa hvolpana en einnig eiga hýenur, bavíanar og ránfuglar það til að drepa þá. Sjúkdómar og áhrif mannsins taka einnig sinn toll og eru blettatígrar meðal annars vinsæl gæludýr í ákveðnum heimshlutum.
  3. Blettatígrar geta náð ótrúlegum hraða, þó umdeilt sé hversu miklum. Mesti hraði sem mældur hefur verið var 96 km/klst. Á meðan á sprettinum stendur eru blettatígrar í loftinu meira en 50% tímans. Hlaupin standa þó stutt yfir og hafa dýrin aðeins um 20 sekúndur til að ná bráðinni.
  4. Blettatígrar eru nokkuð ólíkir öðrum stórum ránköttum og geta til dæmið ekki gefið frá sér öskur, klifrað í trjám né séð vel í myrkri. Blettatígrar geta hins vegar malað hátt, hvæst og get jafnvel tíst og gefið frá sér hljóð sem líkist gelti.
  5. Kvendýr af tegundinni eru einfarar og ala upp afkvæmi sín einar síns liðs. Þær hitta aðra blettatígra aðeins í þeim tilgangi að makast. Karldýrin eru aftur á mót félagslyndari og ferðast gjarnan um í hópum sem telja allt að fimm dýr. Yfirleitt er um að ræða bræður en utanaðkomandi karldýr fá einstaka sinnum aðgang að hópnum.