Mynd: The Gaia Health blog
Mynd: The Gaia Health blog

1. D vítamín er stundum kallað sólarvítamínið, ástæðan er sú að í sólskini fer fram efnahvarf í húðinni sem leiðir til framleiðslu D vítamíns. Til að koma framleiðslunni af stað þurfum við útfjólubláageisla, þ.e. geislana sem einnig geta valdið sólbruna en ljósmagnið sem til þarf er svo lítið að hættan á bruna er nær engin. Þetta þýðir að þegar við förum út með sólarvörn um allan líkamann, eins og venja er, þá fer lítil sem engin framleiðsla í gang.

2. D vítamín er fituleysanlegt vítamín, í raun hefur það sömu grunnbyggingu og mörg hormón. Sú staðreyna að vítamínið er fituleysanlegt gerir það að verkum að sé það innbyrgt í of miklu magni safnast það fyrir í líkamanum og getur valdið neikvæðum áhrifum á borð við hækkun kalks í blóði, auknar líkur á beinbrotum, myndun nýrnasteina og neikvæð áhrif á hjartað svo eitthvað sé nefnt. Svo skemmtilega vill til að aukin framleiðsla D vítamíns í húð leiðir ekki til ofskömmtunar á D vítamíni.

3. D vítamín er nauðsynlegt fyrir frásog kalks úr meltingarvegi og stuðlar að réttum þroska beina í börnum og viðhaldi beina í fullorðnu fólki. D vítamín hefur þó áhrif á margt annað en beinin okkar og skortur á vítamíninu hefur mælst hjá þunglyndissjúklingum, gigtarsjúklingum og einnig hefur skortur á vítamíninu verið tengt við myndun ákveðinna krabbameina. Enn sem komið er er þó erfitt að segja til um orsök og afleiðingu en vítamínið virðist svo sannarlega spila stórt hlutverk í líkama okkar. Skortur á D vítamíni getur því skilað sér í truflum víðsvegar í líkamanu, algengast er þó að sjá truflun á viðhaldi og byggingu beina.

4. Ráðlagður dagskammtur D vítamíns samkvæmt lýðheilsustofnun á Íslandi er á bilinu 10-15 µg á dag fyrir fullorðna manneskju. Margir sérfræðingar halda því þó fram að ráðlagður dagskammtur sé allt of lágur og sumir vilja ganga svo langt að hækka hann uppí 50 µg á dag. Flestir eru þó sammál um að ekki sér öruggt að neyta meira en 100 µg á dag.

5. Helstu D vítamín uppsprettur, fyrir utan að sóla sig, eru feitur fiskur, egg og lýsi. Vegna staðsetningar Íslands á jarðkringlunni er fólki búsettu hérlendis ráðlagt að taka inn auka D vítamín að minnsta kosti yfir svörtustu vetrarmánuðina.

Heimildir:
Vítamín.is
Doktor.is