1.
Alþjóðlegar rannsóknir sýna að af hverjum 10.000 börnum sem fæðast munu um það bil 5-10 þeirra greinast á einhverfurófinu, þetta samsvarar 0,05-0,1%. Sumar rannsóknir sýna þó að einhverfutilfellin eru mun fleiri eða 1,5%. Þetta misræmi má að öllum líkindum rekja til þess hve missýnileg röskunin er og að greiningar eru ekki alltaf sambærilegar milli þjóða.

2.
Við greiningu á einhverfu er í meginatriðum horft á þrjá þætti í hegðun barnsins, félagslega færni, færni í tjáningu og áráttuhegðun. Oft er talað um að barn sé með dæmigerða einhverfu ef það sýnir frávik í öllum þremur fyrrtöldum þáttum. Auk þess er einhverfa mjög misalvarleg og getur háð einstaklingum mismikið. Þess vegna er talað um einhverfuróf, vegna þess að einstaklingur með einhverfu getur sýnt mjög mikil frávik í t.d. færni í tjáningu eða mjög lítil.

3.
Einhverfu fylgir í oft einhvers konar snilligáfa á öðrum sviðum, margir einhverfir eiga til dæmis auðvelt með að muna og hugsa í tölum. Rannsóknir sem hafa tengt ákveðin gen við einhverfu hafa einnig sýnt fram á tengingu þeirra við afburðahæfni á einhverjum sviðum, það staðfestist svo með þeirri snilligáfu sem við sjáum oft hjá einhverfum einstaklingum.

4.
Enn sem komið er vitum við ekki hvað veldur einhverfu. Erfðir virðast spila þar þátt, en einhver gen hafa verið tengd við röskunina. Auk þess er mjög líklegt að umhverfi spili einnig þátt. Þrátt fyrir að litlar upplýsingar liggi fyrir núna þá fleygir rannsóknum á þessu sviði fram og þekking okkar er alltaf að aukast.

5.
Einstaklingar sem greinast með einhverfu lifa oft mjög góðu lífi og einstaklingur sem greindur er með einhverfu á rétt á sérstökum stuðningi hjá því kerfi sem það tilheyrir, s.s. leikskóla eða grunnskóla. Einhverfir upplifa heiminn á annan hátt en þeir sem við að öllu jöfnu flokkum sem heilbrigða… en það er kannski bara alls ekkert slæmt!

Heimildir:
Einhverfusamtökin
Autism Speaks
National Institute of Mental Health
Hvatinn: Gen sem tengist einhverfu einnig tengt aukinni greind