pet-owner

Gæludýraeign hefur án efa margvísleg áhrif á okkur, bæði andlega og líkamlega. Hver áhrifin eru hefur löngum verið vísindamönnum hugleikið og fjölmargar greinar þess efnis hafa verið birtar í gegnum tíðina.

Hér er listi yfir 5 skemmtilegar staðreyndir sem rannsóknir á sambandi manna og dýra hafa leitt í ljós.

1. Það getur verið hollt að bera ábyrgð á öðru en bara sjálfum sér. Í bandarískri rannsókn þar sem börn og ungmenni með sykursýki, týpu eitt, voru skoðuð kom í ljós ávinningur þess að eiga gæludýr. Þau börn sem báru ábyrgð á gæludýri voru 2,5 sinnum líklegri til að halda jafnvægi í blóðsykrinum samanborið við börn sem ekki báru ábyrgð á gæludýrum.

2. Að eiga gæludýr hefur góð áhrif á félagsfærni barna sem glíma við einhverfu. Einhverf börn virðast eiga auðveldara með að tjá sig um dýrin en aðra hluti eins og til dæmis líðan þeirra eða upplifanir.

3. Og meira um börn en þau mynda oft mjög sterk tengsl við gæludýrin sín. Svo sterk að oft upplifa börnin sterkari tengsl við dýrin en systkini sín.

4. En það eru ekki bara börn sem græða á tengslamyndun við dýr. Gæludýraeign meðal eldri borgara getur stuðlað að hreyfingu, bættu matarræði og betri andlegri líðan. Þannig gætu gæludýr stuðlað að bættri lýðheilsu meðal eldra fólks, að minnsta kosti meðan þau hafa heilsu til að hugsa um dýrin.

5. Rannsóknarteymi við The University of British Columbia lagði til að skólar, t.d. heimavistaskólar og háskólar, notuðu svokallaða hundameðferð til að minnka brottfall nemenda. Í rannsókninni voru nemendur sem þjáðust af heimþrá látnir njóta samvista við hunda sem leiddi til þess að nemendurnir upplifðu minni heimþrá og þar af leiðandi minnkuðu líkur á brottfalli.