Hlýnun Jarðar má rekja til þess að svokallaðar gróðurhúsalofttegundir halda varma inni í lofthjúpnum og valda því sem nefnast gróðurhúsaáhrif. Gróðurhúsalofttegundir eru til dæmis koltvíoxíð, metan og vatnsgufa.
Það sem nú er að gerast er að of mikið af gróðurhúsalofttegundum eru losaðar út í andrúmsloftið svo hlýnunin er að verða meiri en æskilegt er.
Fyrir iðnbyltingu var styrkur koltvísýrings í andrúmsloftinu í kringum 280 milljónustu hlutar (ppm) en er í ár yfir 400 ppm. Styrkur koltvíoxíðs er nú talinn vera hærri en hefur verið í um fimm milljón ár og hlýnun Jarðar hefur aldrei verið með eins miklum hraða og nú.
Auk losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum er margt sem hefur áhrif á hlýnun Jarðar, meðal þess er skógareyðing. Tré gegna mikilvægu hlutverki því auk þess að losa súrefni út í andrúmsloftið binda þau mikið magn af koltvíoxíði. Ef trén hverfa eykst styrkur koltvíoxíðs því í kjölfarið og stuðlar að enn frekar hlýnun.
Áhrif hlýnunar Jarðar eru margþætt, meðal þeirra eru öfgafyllri veðurfyrirbæri á borð við fellibyli og flóðbylgjur, hækkun á yfirborði sjávar auk súrnunar og hlýnunar sjávar sem kemur til með að hafa mikil áhrif á þær lífverur sem búa í hafinu.