jolabarn

Nú eru jólin að nálgast og því ekki úr vegi að síðasti fróðleiksmoli Hvatans fyrir þessa helgu hátíð fjalli um jólabarnið sem gaf okkur færi á að halda þessa dásamlegu hátíð.

1. Þegar talað er um jólabarnið er yfirleitt verið að vísa í sjálfan Jesú Krist sem samkvæmt biblíunni er sonur Guðs. Hins vegar eru margir sem telja sig vera jólabarn og er þá vísað í þá gleði og tilhlökkun sem viðkomandi einstaklingur finnur fyrir þegar jólin nálgast.

2. Jesús gengur þó yfirleitt ekki undir nafninu jólabarnið nema á þessum árstíma, þ.e. í kringum jól, en þá er talið að hann hafi fæðst.

3. Samkvæmt biblíunni var Jesús eingetinn, sem þýðir að hann hefur ekki orðið til við samruna sæðisfrumu og eggfrumu. Einungis sagnfræðilegar heimildir eru til sem styðja þessa kenningu þar sem þetta fyrirbrigði þekkist ekki meðal manna. Hins vegar eru slík atvik tiltölulega algeng í dýraríkinu en þá er talað um kynlausa æxlun.

4. Það þarf kannski ekki að taka fram, en önnur jólabörn, þ.e. þau sem hlakka óstjórnlega til jólanna, eru að öllum líkindum ekki eingetin þar sem ekki eru neinar sannanir fyrir því að mannskepnan geti stundað kynlausa æxlun.

5. Samkvæmt þeirri þekkingu á erfðafræði sem við búum yfir í dag er nær óhugsandi að Jesús hafi verið karlmaður, hafi hann verið eingetinn. Konur eru nefnilega með tvo X litninga meðan karlar hafa einn X litning og svo einn Y litning. Jesús hefur því ekki getað fengið Y litning frá móður sinni.