Mynd: Conneticut snow
Mynd: Conneticut snow

Það vantar ekki snjóinn á Íslandi þessa dagana og því tilvalið að afla sér smá þekkingar um fyrirbærið.

1. Snjór myndast í veðrahvolfinu þar sem hitastigið fer niður fyrir frostmark, þess vegna fellur öll úrkoma sem snjór en hitastigið fyrir neðan veðrahvolfið ræður því hvort úrkoman lendi sem snjór eða rigning.

2. Á íslensku eru til nánst óteljandi orð um snjó, ástæðan er að öllum líkindum sú að Íslendingar upplifa svo mörg mismunandi snjóveður sem nauðsynlegt þykir að lýsa.

3. Snjór er hvítur, það kemur kannski ekki á óvart enda hafa langflestir lesendur Hvatans séð snjó oftar en einu sinni. Snjórinn er hvítur vegna þess að þegar ljós skín á hann endurkastar hann öllum geislunum aftur frá sér nánast án þess að gleypa nokkra einustu bylgjulengd. Í fjarlægð getur snjórinn samt virst blár á sama hátt og himininn virðist blár.

4. Mestur snjór á Íslandi fellur á Mýrdalsjökli og Vatnajökli, snjóþyngstu byggðarkjarnar Íslands eru þó líklega Siglufjörður og Ólafsfjörður. Mesti jafnfallni snjór sem mælst hefur á Íslandi féll við Skeiðafossvirkjun í Fljótum árið 1995 og náði snjórinn þá 279 cm.

5. Jöklar eru gerðir úr snjó, á þeim stöðum sem jöklar hafa myndast hefur snjórinn aldrei náð að bráðna og þess vegna safnast þar upp snjór í áraraðir. Í tilfelli jöklanna okkar á Íslandi er snjórinn sem þar finnst mörg þúsund ára gamall og sýni sem tekin eru úr jöklunum geta gefið okkur margvíslegar upplýsingar um jarðsöguna, líf á jörðinni, veðurfar og margt fleira.

Heimildir:
National Snow and Ice Data Center
Vísindavefurinn
Vísindavefurinn
Veðurstofan